Í hálf fimm fréttum Kaupþings segir að hlutabréf í OneSource Services Inc. í Belize, sem er skráð á AIM-markaðinn í Lundúnum, hækkuðu um 569% í dag. Tilkynnt var um að ABM Industries hyggist eignast allt hlutafé í OneSource fyrir 365 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 22,2 milljarða króna, eða sem nemur 48,1 pundi á hlut. Lokagengi OneSource var 6,65 pund á hlut við lokun viðskipta á föstudaginn.

Stjórnir fyrirtækjanna hafa samþykkt samkomulagið fyrir sitt leyti og sömuleiðis Michael Ashcroft lávarður, stjórnarformaður OneSource, sem heldur utan um 74% hlutafjár í félaginu.
OneSource er þjónustufyrirtæki, meðal annars á sviði ræstinga, og rekur starfsemi í 45 ríkjum Bandaríkjanna. Yfir tíu þúsund fyrirtæki og stofnanir eru meðal viðskiptavina félagsins.