„Öll námskeiðin okkar eru uppseld en við erum núna að bæta við fleiri hópum því það eru komnir töluverðir biðlistar í öll námskeiðin. Við höfum oft séð mikinn áhuga eftir kynningarfundina okkar, en ekki á undan eins og nú. Að sama skapi verður að segjast að það sé að bókast ótrúlega vel í ferðir sumarsins. Af 40 lengri ferðum eru 10 að nálgast að vera fullbókaðar, sem gerir um 300 til 400 manns sem þegar eru búnir að greiða fyrir ferðirnar,“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.

„Við skipuleggjum gönguhópana þannig að hver fararstjóri er með 9 manns og hver hópur er með mismunandi brottfarartíma. Þannig hittist kannski einn hópurinn klukkan 6, sá næsti 10 mínútur yfir og næsti 20 mínútur yfir og þá eru um 500 metrar á milli hvers hóps og svo getur fólk haldið tveimur metrum á milli sín í hverjum gönguhóp fyrir sig. Við látum hópana heldur ekki mætast heldur göngum við í hring.“

Yfir 100 á biðlista

Skúli Haukur Skúlason, framkvæmdastjóri Útivistar, finnur einnig fyrir aukinni eftirspurn í veirufaraldrinum en félagið bíður með að kynna sín verkefni þar til nýjar sóttvarnareglur taka gildi 12. janúar næstkomandi. „Við höfum fundið að það er að njóta mikilla vinsælda að kaupa sig inn í göngudagskrá, því fólk virðist kalla eftir því að binda sig, því það sparkar manni af stað,“ segir Skúli Haukur um áramótaheit landans í þetta sinn.

„Gönguskíðin eru líka að koma sterk inn núna og maður heyrir af auknum fjallaskíðaáhuga sem við ætlum að bregðast við í ár. Ég veit að sala á gönguskíðum og fjallaskíðum núna fyrir jólin var gríðarleg bæði hjá GG Sport og Fjallakofanum og eflaust fleirum.“

Halla Haraldsdóttir, formaður skíðagöngufélagsins Ullar, segir mikla eftirspurn vera eftir námskeiðum félagsins sem og annarra hópa sem bjóði skíðagöngunámskeið.

„Það eru yfir 100 á biðlista hjá okkur, en það má segja að íþróttin sé búin að vera að springa út síðustu fjögur ár en svo verður önnur sprenging núna í haust,“ segir Halla.

2020 stærsta söluárið

Ásmundur Þórðarson, markaðsstjóri Fjallakofans, og Guðmundur Gunnlaugsson hjá GG Sport staðfesta yfir 20% aukningu í sölu hjá félögunum, og jafnframt að það hafi verið alger sprenging í sölu á gönguskíða- og fjallaskíðabúnaði.

„Árið 2020 var stærsta söluár Fjallakofans nokkurn tíma, með tugi prósenta söluaukningu, en það sem selst hefur mest eru gönguskór, hlaupaskór og utanvegahlaupaskór. Svo hafa höfuðljós verið að seljast ótrúlega vel. Áður hætti fólk að fara í fjallgöngur þegar var orðið myrkur næstum allan sólarhringinn, og fór bara í líkamsræktarstöðvarnar en núna er ekki um þær að velja,“ segir Ásmundur.

„Það hefur verið gríðarleg sala í fjallaskíðunum og uppselt í þrígang síðan við byrjuðum að selja í nóvember, kannski af því lyfturnar eru lokaðar en fólk getur þá labbað upp, tekið skinnið undan og skíðað svo niður. Við erum svo að fá risastóra sendingu í næstu viku,“ segir Guðmundur.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fjallað er um báráttuna um Skeljung
  • Sagt er frá ákalli ferðaþjónustunnar um skýrar reglur á landamærunum áður en sumarið gengur í garð.
  • Ítarlegt viðtal við Jan Olsson, framkvæmdastjóra Deutsche bank á Norðurlöndunum
  • Velt er vöngum yfir því hvort háir fasteignaskattar Reykjavíkurborgar af atvinnuhúsnæði séu að fæla fyrirtæki úr borginni yfir í nágrannasveitarfélög
  • Saga ráðgjafafyrirtækisins Capacent, sem fór í þrot í fyrra í annað sinn, reifuð
  • Nýr forstjóri Sorpu segir frá ferlinum úr tæknigeiranum í ruslið og áskorunum framundan
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað auk Týs, sem ráðgjafa Katrínar Jakobsdóttur
  • Óðinn skrifar um heilbrigðisráðherra, ESB og bólusetningar