„Þetta eru nokkrar einingar sem skipta engu máli fyrir mínar áætlanir. Maður sefur betur en nokkru sinni þegar þetta er að baki. Það var vont að eiga þetta eftir,“ segir byggingameistarinn Hreiðar Hermannsson hjá Stracta Konstruktion. Félag hans keypti vinnubúðir Fjarðaráls á Reyðarfirði í fyrrahaust og áformar að reisa fjölda hótela á Suðurlandi. Hæstiréttur dæmdi í dag að félagið Gunnþór ehf sé heimilt með beinni aðfarargerð að fá tekna úr umráðum félags Hreiðars hluta vinnubúðanna sem hann hafði keypt. Um er að ræða tæplega 2.300 fermetra af svefnskálum með öllu tilheyrandi og þrektækjasal.

Áformað er að hvert hótel sem Hreiðar er með á teikniborðinu verði um 3.000 til 3.500 fermetrar að stærð og verði þau í Mýrdal, á Hvolsvelli, Stokkseyri, í Reykholti í Biskupstungum og í Hveragerði. Lengst er málið komið á Hellu en þar hefur byggingafyrirtæki Hreiðars fengið úthlutað lóð í eigu sveitarfélagsins fyrir 100 herbergja hótel með fundar- og veitingasölum á bökkum Rangár.

Málið í Hæstarétti sneri í grófum dráttum um söluna á vinnubúðunum en ekki síst því hver eigi að ganga frá svæðinu sem þær stóðu á. Áður en vinnubúðirnar voru reistar á sínum tíma á Reyðarfirði voru myndir teknar af svæðinu og átti að koma því í sem næst upprunalegt horf þegar vinnubúðirnar yrðu teknar. Nú hefur verið skorið úr um að félagið Vista á að ganga frá svæðinu.

Hella fyrst í röðinni

Hreiðar segir í samtali við vb.is aðeins um lítið brot af vinnubúðunum að ræða og hafi það ekki áhrif á áform hans um uppbyggingu. Hreiðar, sem er faðir knattspyrnukappans Hermanns Hreiðarssonar, segir uppbygging hótelanna á Suðurlandi og fyrir norðan ganga samkvæmt áætlun.

„Þetta lítur vel út en tekur tíma,“ segir hann og reiknað með að fyrsta hótelið rísi á Hellu og hin síðar.

Dæmur Hæstaréttar