Hrein eign lífeyrissjóðanna dróst saman um 25 milljarða í janúar eða um 1,5% og var 1.622 milljarðar í lok mánaðarins. Til samanburðar má nefna að eignir lífeyrissjóðanna jukust um 0,8% í janúar á síðasta ári og um 3,3% í janúar árið 2006. Aukning hreinnar eignar síðustu 12 mánuði var 116,9 milljarðar eða 7,8% samanborið við 19,5% aukningu ári áður.

Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis og er vísað í tölur frá Seðlabanka Íslands sem birtar voru í gær.

Eign í innlendum hlutabréfum stendur í stað

Eign í innlendum hlutabréfum stóð nánast í stað á milli mánaða en hefur dregist saman um 2,5% síðan í júní síðastliðnum þegar markaðir tóku að lækka í kjölfar lausafjárkreppunnar á alþjóðlegum mörkuðum.

Hrein eign lífeyrissjóðanna í innlendum verðbréfum er nú 1.141milljarðar sem er sama upphæð og í maí síðastliðnum. Hrein eign lífeyrissjóða í erlendum verðbréfum dregst saman um 3,5%  frá fyrri mánuði og nam 442milljörðum í lok janúar. Má ætla að lækkanir á erlendum hlutabréfamörkuðum og lækkun á gengi krónunnar skýri þessa lækkun.