Markmið, lýsing, kostnaður og arðsemi á framkvæmdum á gatnamótum og stokkum við Kringlumýrarbraut og Miklubraut voru kynnt fyrir umhverfis- og samgönguráði Reykjavíkurborgar í gær.

„Ólafur Bjarnason skrifstofustjóri samgöngumála á Umhverfis- og samgöngusviði kynnti efnið og sagði meðal annars frá umferðarspám, öryggi og umhverfi. Nefndar voru leiðir til að bæta umferðarflæði, draga úr töfum og auka umferðarrýmd. Einnig skýrði hann frá því hvernig bæta mætti samgöngur fyrir gangandi og hjólandi, draga úr hávaða og mengun. Í kynningunni kom fram að fyrsta áfanga þessara framkvæmda mætti ná á árunum 2009-2011,“ segir í tilkynningu frá Umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar.

Þá kemur fram að gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar eru næstfjölförnustu gatnamót landsins með um 80 - 85 þús. bíla umferð á sólarhring en að sama skapi hefur kostnaður vegna umferðaróhappa þar verið einna hæstur á höfuðborgarsvæðinu. Árið 2005 var ráðist í breikkun gatnamótanna og uppsetningu fjögurra fasa ljósastýringar og segir í kynningunni að við þær aðgerðir hafi  liðkaðist verulega um umferð og vísbendingar eru um að alvarlegum slysum hafi fækkað verulega.

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins var samþykkt árið 2002 en í kynningunni kemur fram að frá gerð svæðisskipulagsins hefur byggðarþróun verið með nokkuð öðrum hætti en þar var gert ráð fyrir

„Er það bæði að uppbygging hefur verið hraðari en einnig hefur hún verið á öðrum stöðum en ráð var fyrir gert. Skipulagsmál höfuðborgarsvæðisins hafa því verið í sífelldri þróun undanfarin ár og hafa spár um umferð á stofnbrautakerfinu tekið verulegum breytingum í takt við ný uppbyggingaráform. Þessi hraða þróun í skipulagsmálum bendir eindregið til að nauðsynlegt sé að velja sveigjanlegar gatnamótalausnir.“

Lagt er til að leiða hluta umerðarðarinnar í stokk á Miklubraut til að koma í veg fyrir vandamál hávaða, loftmengunar og svifryks

Hægt er að skoða kynninguna og tengd skjöl á vef Reykjavíkurborgar.