Kostnaður við byggingu höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur fór langt fram á úr áætlunum á sínum tíma. Á verðlagi dagsins í dag kostaði húsið um 10,3 milljarða. Vegna rakaskemmda er nú verið að skoða þann möguleika að rífa vesturhúsið.

Allt frá því ákvörðun var tekin um byggja nýjar höfuðstöðvar árið 1999 hefur húsið við Bæjarháls verið umdeilt. Fjölmiðlar fjölluðu mjög ítarlega um málið á sínum tíma enda fór kostnaðurinn við framkvæmdirnar langt fram úr áætlunum og hvergi var sparað. Upphafleg kostnaðaráætlun hljóðaði upp á um 2,3 milljarða króna árið 2002, sem er um 4,5 milljarðar á verðlagi dagsins í dag.

Í skýrslu úttektarnefndar um Orkuveitu Reykjavíkur frá árinu 2012 kemur fram að árið 2010 hafi heildarkostnaður við framkvæmdina verið tæplega 8,5 milljarðar króna. Á verðlagi dagsins í dag jafngildir það um 10,3 milljörðum.

Með öðrum orðum þá átti húsið að kosta 4,5 milljarða en kostaði 10,3. Við þetta má síðan bæta 460 milljónum króna vegna tilraunaviðgerða vesturhúsinu í fyrra. Miðað við þær leiðir sem forsvarsmenn Orkuveitunnar eru að skoða þá munu úrbætur kosta á bilinu 1,7 til 3 milljarða króna og þar með er kostnaður við höfuðstöðvar Orkuveitunnar kominn í 12,5 til 13,8 milljarða króna.

Orkuveitan fjármagnaði hluta af byggingu höfuðstöðvanna með sölu á eignunum við Suðurlandsbraut 34, Ármúla 31, Grensásveg 1 og Eirhöfða 11 fyrir tæplega 4 milljarða á verðlagi dagsins í dag.  Þessi viðskipti fóru fram á árunum 2000 til 2004.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .