Líkt og með gengi krónunnar lækkaði gengi hlutabréfa allverulega á árinu sem nú er að líða.

Í upphafi árs stóð Úrvalsvísitalan í 6.144 stigum en stóð við lok markaða í gær í 352 stigum samkvæmt Markaðsvaktinni og hefur því lækkað um 94,3% á árinu.

Í meðfylgjandi töflu má sjá helstu hækkanir og lækkanir einstakra félaga í Kauphöllinni á árinu.

Rétt er að taka fram að hér er aðeins um þau félög að ræða sem enn eru skráð í Kauphöllina en félögum í Kauphöll fækkaði um 11 á árinu en þar á meðal eru viðskiptabankarnir sem voru stærstu félögin í Kauphöllinni. Í lok árs eru 12 félög skráð í Kauphöllina.

Markaðsvirði skráðra félaga í kauphöllinni er nú um 250 milljarðar króna en var í upphafi ársins rúmlega 3.000 milljarðar króna samkvæmt Morgunkorni Glitnis í gær.

Eimskip og Exista lækka mest en Össur hækkar eitt félaga

Eimskipafélag Íslands lækkaði mest allra félaga sem enn eru skráð eða um 96,4% en í um mitt sumar tók gengi félagsins dýfu eftir að ljóst var að afskrifa þyrfti um níu milljarða króna vegna hlut síns í Innovate, bresks geymslu og dreifingafélags í kældum og frystum afurðum.

Á haustmánuðum varð Eimskapfélagið aftur fyrir áfalli vegna ábyrgðar sinnar á breska ferðaþjónustufélaginu XL Leisure Group og þann fimmtánda þessa mánaðar sendi Eimskipafélagið frá sér afkomuviðvörun vegna fyrirséðrar gjaldfærslur á fjórða ársfjórðungi vegna þessa. Rúmlega 200 milljóna evra ábyrgð féll á Eimskip vegna XL Leisure Group.

Það var þó Exista sem lækkaði allra mest félaga á árinu, ef tekið er tillit til þeirra félaga sem kvatt hafa Kauphöllina á árinu, en þegar Exista kvaddi Kauphöllina nú rétt fyrir jól hafði félagið lækkað um 99,8% frá áramótum.

Viðskipti voru stöðvuð með bréf í Exista, ásamt öllum öðrum fjármálafyrirtækum, þann 6. október síðastliðinn og heimiluð á ný þann áttunda þessa mánaðar. Þann dag lækkaði félagið um 97%, úr 4,62 á hvern hlut í 0,19. Við brotthvarfið úr Kauphöllinni fyrir jól var hver hlutur metinn á 0,04.

Össur hækkaði á árinu um 1,2% og er þar með eina félagið sem hækkaði á árinu. Í lok október kynnti Össur uppgjör sitt fyrir þriðja ársfjórðung en rekstrarniðurstöður þess voru þær bestu í sögu félagsins, sem er í þversögn við núverandi ástand hjá flestum öðrum fyrirtækjum.

Mest veltan með bréf í Kaupþing

Heildarvelta með hlutabréf í Kauphöllinni var rúmi 1.100 milljarðar króna á árinu en velta með hlutabréf í Kauphöllinni fór nokkuð minnkandi þegar leið á árið en mesta veltan var á árinu með bréf í viðskiptabönkunum þremur.

Þannig var velta upp á rúmar 380 milljarða króna með bréf í Kaupþingi, tæpir 270 milljarðar með bréf í Glitni og rúmir 215 milljarðar með bréf í Landsbankanum. Rétt er að taka fram að aðeins voru viðskipt með þessi félög fyrstu níu mánuði ársins og fyrstu dagana í október.

Þá var velta fyrir rúma 70 milljarða með bréf í Straum, um 60 milljarða með bréf í Exista og tæpa 23 milljarða með bréf í Bakkavör.

Í dag er helsta veltan í Kauphöllinni með bréf í Straum, Össur, Bakkavör og Marel en fyrstu níu mánuði ársins var helst velta með viðskiptabankana Kaupþing, Landsbankann og Glitni eins og áður hefur komið fram.