„Í rauninni hafa Íslendingar ekki orðið svona pirraðir síðan einhvern tímann á 10. öld,“  segir í grein á vefsíðu The Independent í dag.

Í greininni er fjallað er um reiði Íslendinga vegna hryðjuverkalagabeitingar Gordons Brown og sagt frá undirskriftarsöfnununni sem 35.000 Íslendingar, eða einn níundi hluti þjóðarinnar, skrifuðu undir á netinu í gær til þess að mótmæla þessum aðgerðum.

„En kannski ættu þeir [Íslendingar] að hugsa út í hvernig okkur líður,“ segir greinarhöfundurinn breski.

Áður fyrr hafi Íslendingar rænt klaustrin þeirra með atgeirinn á lofti en í þetta sinn fari afkomendur sömu manna ránshöndum um opinberar hirslur þeirra vopnaðir bókhaldsskjölum.

Allt tal um að sagan sé að endurtaka sig er þó að sjálfsögðu meira í gríni en alvöru að sögn greinarhöfundar. „Þið eruð frábært, friðsælt fólk og annálar miðalda voru ykkur virkilega andsnúnir í umfjöllun sinni. Eitt þó: ekki búast við að fá lán á næstunni.“