Engin niðurstaða náðist í viðræðum milli íslenskra og breskra stjórnvalda um Icesave sem fram fóru í Reykjavík í dag og í gær. Viðræðunum verður þó haldið áfram á næstunni, samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu. Sendinefnd Breta heldur heim á leið á morgun.

„Viðræðunum er ekki lokið og er gert ráð fyrir að þeim verði framhaldið á næstunni," segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Viðræðurnar snúast um Icesave-reikninga Landsbankans í Bretlandi en samkvæmt Financial Times hafa Bretar farið fram á að Íslendingar ábyrgist innistæðurnar upp að 600 milljörðum króna.