Sem kunnugt er hefur mikið verið rætt um meintar árásir spákaupmanna á íslensku krónuna og um mögulegar skortstöður þeirra bæði í krónum og hlutabréfum í kauphöllinni. Ýjað hefur verið að því að slíkir fjárfestar hafi skortselt krónuna og hlutabréfamarkaðinn í miklum mæli og hefur ástandinu jafnvel verið líkt við efnahagslega árás á hagkerfi landsins.

Þessi umræða leiðir hugann að tveimur atburðum á fjármálamörkuðum: Þegar bresk stjórnvöld neyddust til að draga pundið úr myntsamstarfi Evrópusambandsins árið 1992 og þegar peningamálayfirvöld í Hong Kong guldu skortsölumönnum rauðan belg fyrir gráan árið 1998. Segja má að deilt sé meðal hagfræðinga um getu spákaupmanna til þess að hafa áhrif á markaði.

Hreintrúarmenn á virkni markaða telja slíkt nánast útilokað þar sem hann leiti alltaf jafnvægis sem endurspegli grunnstoðir hagkerfisins. Þar af leiðandi sé nánast ómögulegt að taka stöðu gagnvart grunnstoðunum þar sem skilvirkni markaða geri það að verkum að eignaverð sé nánast alltaf rétt og endurspegli allar fyrirliggjandi upplýsingar.

Þeir sem telja að eignaverð hafi í raun sjálfstæð áhrif á væntingar og orsakasamhengið sé sjálfstyrkjandi útiloka ekki slíkt, enda hafa þá markaðir tilhneigingu til að vera í ójafnvægi til lengri tíma litið.

______________________________________

Í Viðskiptablaðinu í dag er að finna úttekt á árásum spákaupmanna á sterlingspundið og Hong Kong á sínum tíma, og samanburð þeirra við stöðuna á Íslandi í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .