Fyrsta millifærslan fór í gegnum kerfi indó sparisjóðs og Reiknistofu bankanna á mánudaginn 9. maí. „Er indó þar með orðinn fullgildur aðili að greiðslukerfi banka á Íslandi,“ segir í fréttatilkynningu. Gert er ráð fyrir því að indó opni dyr sínar fyrir almenningi á síðari helmingi ársins

Indó er nýr íslenskur sparisjóður, sem leggur áherslu á einfalda og gagnsæja bankaþjónustu og að bjóða betri kjör en keppinautarnir. Indó fékk starfsleyfi frá Seðlabanka Íslands þann 15. febrúar og er fyrsti sparisjóðurinn sem fær leyfi hér á landi síðan 1972 ásamt því að vera fyrsti íslenski „áskorendabankinn“ eins og sambærileg fjármálafyrirtæki hafa verið nefnd erlendis.

„Við erum gríðarlega stolt af þessum áfanga og þeim frábæra hópi sem starfsfólks og samstarfsaðila sem hafa komið indó á þennan stað. Við finnum fyrir mikilli eftirvæntingu í samfélaginu og miklum áhuga og það verður gaman að svipta hulunni af því hvernig indó ætlar að breyta markaðnum með gagnsæi, sanngirni og gleði að leiðarljósi. Við hlökkum mikið til haustsins þegar við getum boðið alla landsmenn velkomna í indó, en fram að því ætlum við að gera allt klárt með því frábæra fólki sem gefur kost á sér í prófanir,“ segja Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðsson, stofnendur indó, í tilkynningu.

„Það hefur ekki gerst í áratugi að nýr banki eða sparisjóður sé stofnaður hér á landi frá grunni og það er búið að vera mjög spennandi að taka þátt í þessari vinnu með indó. Gangsetning indó í kerfum RB gekk mjög vel og reksturinn það sem af er hefur gengið snurðulaust. Við óskum indó hjartanlega til hamingju með þennan stóra áfanga,“ segir Jón Helgi Einarsson , framkvæmdastjóri Hugbúnaðarsviðs RB.