Viðskiptablaðið hefur að undanförnu fjallað nokkuð um millifærslur milli hinna svokölluðu einkaréttar- og samkeppnishluta í rekstri Íslandspósts. Í umfjöllun blaðsins þann 12. febrúar síðastliðinn kom fram að Íslandspóstur hafi niðurgreitt samkeppnisrekstur með einkaréttarrekstri, en því til rökstuðnings var vísað í ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) og gögn sem stjórn Íslandspósts lét PFS í té.

Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, hefur hins vegar sjálfur sagt hið gagnstæða, það er að segja að Íslandspóstur greiði einkaréttarhluta rekstursins niður með samkeppnisrekstrinum. Í viðtali við Viðskiptablaðið segir hann að það sé alveg á hreinu að starfsemi utan alþjónustu sé ekki greidd niður með einkarétti.

"Og reyndar heldur ekki samkeppnisstarfsemi innan alþjónustu sem er utan óvirkra markaðssvæða. Um það snýst væntanlega allt eftirlit með okkur. Og við með sjálfum okkur að sjálfsögðu, því þetta er grundvallaratriði.

En það er voðalega auðvelt að sá tortryggni í kringum þetta og halda slíku fram, af því að það eru bara orð. En við erum með eftirlitsstofnanir til að fylgjast með þessu, fyrir utan það að við erum með starfsmenn hérna innanhúss sem fylgjast með þessu þá erum við með tvær eftirlitsstofnanir sem fylgjast með þessu,“ segir hann.

Ekki hægt að segja já eða nei yfir borðið

Ingimundur segir að einkaréttarreksturinn hafi verið rekinn með tapi undanfarin ár. Í ársreikningi 2012 segir hins vegar að einaréttarrekstur hafi skilað jákværði afkomu. Spurður um þetta atriði staðfestir Ingimundur það sem fram kemur í ársreikningnum 2012.

„Samkvæmt ársreikningi og viðurkenndri uppgjörsaðferð, sem þá var beitt, var einkarétturinn rekinn með hagnaði. Hann var þó engan veginn rekinn með nægilega miklum hagnaði til að standa undir svokallaðri alþjónustubyrði.“

Í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar fyrr á árinu [ákvörðun 2/2015, innsk. blm.] segir að skýringar á taprekstri Íslandspósts liggi ekki í afkomu einkaréttarhlutans, sérstaklega þegar horft er til áranna 2012 til 2014. Þetta er rökstutt með tilvísunum í miklar verðhækkanir á einkahlutanum, á bréfsendingum. Hafnarðu þessari fullyrðingu PFS?

„Tapreksturinn liggur í alþjónustubyrðinni, en ég næ ekki að gefa þér nákvæmara svar nema orðrétt tilvísunin í PFS liggi fyrir.“

Þannig að þú ert ekki tilbúinn að tjá þig um þetta að svo stöddu máli?

„Ekki svona tiltekin atriði sem ég er ekki búinn að sjá hvernig þeir leiða fram. Þetta er miklu flóknara en svo að maður geti sagt bara já eða nei í spjalli við þig hér yfir borðið.“

Ítarlegt viðtal við Ingimund er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .