Fótboltamót fjármálafyrirtækja var haldið í fjórtánda skipti á Akureyri um helgina og sigraði sameinað lið Íslenskra verðbréfa og T Plús í fyrsta skipti í karlaflokki. Kvennalið Íslandsbanka vann kvennakeppnina og er það í fjórða árið í röð sem Íslandsbanki ber sigur úr býtum í kvennakeppninni.

Einar Ingimundarson, framkvæmdastjóri ÍV, segist að vonum stoltur af sínum mönnum. „Við höfum staðið fyrir mótinu frá árinu 1999 og höfðum lengst komist í þriðja sætið áður en við unnum núna á laugardaginn. Við höfum oft verið með frambærileg lið, en ekki haft erindi sem erfiði.“ Hann segist ekki sjálfur hafa verið með í liðinu, heldur hvatt sína menn áfram af hliðarlínunni. „Þetta var dramatískur úrslitaleikur, sem við lékum við Íslandsbanka. Við komumst yfir eitt núll, en misstum þá svo fram úr okkur og var staðan tvö eitt fyrir þeim þegar tvær mínútur voru eftir. En okkur tókst að setja inn tvö mörk á síðustu mínútunum og unnum þrjú tvö.“

Kvennaliðin aldrei fleiri

Hjörvar Maronson, starfsmaður ÍV, hélt utan um mótshaldið eins og áður. „Þetta er orðið nokkurs konar uppgjörshátíð fjármálafyrirtækja á Íslandi og eru menn farnir að senda mér pósta í október og bóka mætingu á mótið í janúar. Alls tóku þátt í mótinu 26 lið, þar af sex kvennalið og hafa kvennaliðin aldrei verið fleiri. Sautján fyrirtæki sendu lið í keppnina, þannig að frá stærstu bönkunum voru fleiri en eitt lið.“

Keppnin fer þannig fram að hver leikur tekur fjórtán mínútur og eru fimm inn á í einu, einn markmaður og fjórir úti. „Við unnum Íslandsbanka í úrslitaleiknum og svo vann lið HF Verðbréfa leikinn gegn Landsbankanum um þriðja sætið. Hjá konunum vann Íslandsbanki úrslitaleikinn gegn Arion banka og Landsbankinn lenti í þriðja sæti.“

Alltaf er fjölmennt á mótið og getur Hjörvar sér til um að á bilinu 250 til 300 manns hafi mætt á mótið. „Við vorum alltént 250 í matnum um kvöldið.“ Þegar matnum var lokið flutti fólkið sig á götubarinn, þar sem Viðskiptablaðið hefur traustar heimildir fyrir því að Andri Guðmundsson, framkvæmdastjóri HF Verðbréfa, hafi haldið uppi stuðinu með píanóleik.

Hér má sjá kvennalið Íslandsbanka sem fór með sigur af hólmi.

Kvennalið Íslandsbanka.
Kvennalið Íslandsbanka.
© Aðsend mynd (AÐSEND)