Enn hafa íslenskir innistæðueigendur Landsbankans í Lúxemborg ekki fengið neinar upplýsingar um hvenær losni um innistæður þeirra en þeir munu eiga um 18 milljarða króna inni á reikningum bankans.

Að sögn Brynhildar Sverrisdóttur, talsmanns innistæðueigenda, er mjög erfitt að meta stöðuna. Málið situr fast þar til samningar á milli Seðlabanka Íslands, Seðlabanka Lúxemborgar og Skilanefndar LÍ. hafa náðst.

Brynhildur sagðist telja það allra hag að samningar náist.

„Langmestur er hagur íslenska ríkisins, um 700 milljónir evra, sem fara með óbeinum hætti til ríkisins. Hluti fer í gegnum gamla Landsbanka Íslands og hluti fer til Landsbankans í London sem gengur beint upp í Icesave-kröfur,“ sagði Brynhildur.

Hún sagði með ólíkindum að í svona stöðu skuli menn enn vera með hangandi haus í samningaviðræðunum, sérstaklega Íslendingar, sem eiga svo mikið undir þessum samningum.