Senn líður að því að komið sé ár síðan Donald Trump tók við forsetaembættinu í Bandaríkjunum en óhætt er að segja að hann hafi verið umdeildur í embættisfærslum sínum og orðum.

Langflestir fjölmiðlar hafa verið heldur gagnrýnir á forsetann, en á því eru undantekningar, í flestum tilvikum málefnalegar, þó varla séu margar sem eru jafnjákvæðir í garð hans og blaðið Epoch Times sem virðist sjá verk forsetans með nokkuð rósrauðum gleraugum.

Gagnrýninn á kommúnistastjórnina í Kína

Um er að ræða fjölmiðil sem gefinn er út í New York í Bandaríkjunum, bæði í prentaðri útgáfu og á netinu, sem stofnaður var árið 2000 af kínversk ættuðum Bandaríkjamönnum í Falun Gong samtökunum.  Fjölmiðillinn er mjög gagnrýninn á stefnu kommúnistastjórnarinnar í Kína, sem hafa ofsótt samtökin, en hann er gefinn út  á kínversku, ensku sem og níu öðrum tungumálum á ensku, en í heildina 21 tungumáli á netinu.

Greinin byrjar á því að segja að besta lýsingin á þessu fyrsta starfsári forsetans sé það sem felst í hans eigin orðum þegar hann sagði: ,,Við erum að flytja valdið frá Washington D.C., og við erum að gefa það aftur til ykkar, fólksins."

Segja þeir þetta hafa verið leiðarstef í störfum forsetans á árinu sem nú hefur liðið, hann hafi minnkað regluverk ríkisvaldsins, á sama tíma og hann hafi reynt að styrkja almenna Bandaríkjamenn með meiri auðæfum og sjálfstæði. Hann hafi ýtt undir frelsi og grundvallarréttindi eins og trúfrelsi og unnið að því að koma völdum stjórnvalda innan þeirra marka sem stjórnarskrá Bandaríkjanna segi til um.

Hagtölur með besta móti

Þetta segja þeir sé að ganga eftir, atvinnuleysi hafi ekki verið minna síðan árið 2000, hlutabréfavísitölur brjóti hvert metið á fætur öðrum, sjálfstraust neytenda sé í 17 ára hámarki og verg landsframleiðsla sé í 3% sem sé hærra en margir hagfræðingar hafi talið mögulegt.

Með nýjum skattalögum sem samþykkt voru í nóvember sé hægt að búast við að hagvöxtur aukist enn frekar. Stjórnvöldum er jafnframt þakkað að hafa tryggt landamæri ríkisins betur á sama tíma og þeir hafi tekið úr umferð hið ofbeldisfulla glæpagengi MS-13, en það var þekkt fyrir smygl á fólki yfir landamærin.

Varið mannréttindi og siðferðislega forystu Bandaríkjanna á heimsvísu

Á heimsvísu segir fjölmiðillinn að Trump hafi enn frekar staðfest siðferðislega forystu Bandaríkjanna og varðhundur mannréttinda, á sama tíma og hann hafi tryggt traust við gamla bandamenn sem og byggt upp gott samband við nýja.

Hann er sagður hafa látið það vera ljóst að Bandaríkin muni ekki samþykkja lengur mikinn viðskiptahalla sem skaði verkamenn og fyrirtæki í landinu sem og fengið 19 alríkisdómara samþykkta sem túlki lögin eftir bókstafnum en ekki eftir eigin höfði, þrátt fyrir andstöðu demókrata í þingi.

Síðan vitnar fréttaskýringin í gagnrýni á forsetann sem þeir segja afvegaleiðandi, og falska, því enginn annar forseti síðustu áratuga, hvort sem Repúblikani eða Demókrati hafi verið með jafnskýra umbótaáætlun og hann.

Loks listar fréttaskýring The Epoc Times upp það sem þeir kalla helstu afrek forsetans og fjalla um þau á sinn hátt nokkuð ítarlega, en þó einhliða:

  • Trump skrifar undir róttæka nýja skattalöggjöf
  • VLF er meiri en hann hefur verið í tvö ár
  • Atvinnuleysi hafi náð lægra en það hafi verið síðan árið 2000
  • Skattalöggjöfin jafnframt afnemur óvinsæla skylduaðild að Obamacare
  • Niðurskurður á reglugerðum
  • Hlutabréfamarkaðurinn nær methæðum
  • Sjálfstraust neytenda hafi ekki verið jafnhátt í 17 ár
  • Bjartsýni í iðnaðarframleiðslugeira Bandaríkjanna í methæðum
  • Skipun Gorsuch sem dómara í hæstarétti
  • Enduruppbygging bandaríska hersins
  • Trump samþykkir Jerúsalem sem höfuðborg Ísraelsríkis
  • Ofneysla ópíumlyfja tekin föstum tökum
  • Heimtað sanngjarna og gagnkvæma verslun
  • Tryggt stöðu uppgjafahermanna
  • Leyst upp MS-13
  • Stöðvað stuld kínverja á hugverkum
  • Trump dró Bandaríkin út úr TPP og vinnur að endurupptöku NAFTA
  • Umbætur og framfylgni laga um innflytjendur
  • Varið trúfrelsi
  • Tekið alvarlega á mannréttindum
  • Tryggt lykilbandalög við bandamenn Bandaríkjanna
  • ISIS hrakið á flótta
  • Endurnýjað dómskerfið
  • Stefnt á yfirráð í orkumálum
  • Dregið Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu í loftslagsmálum
  • Staðið gegn getu Íran til að þróa kjarnorkuvopn
  • Upplýst um óhlutdrægni fjölmiðla
  • Gagnrýnt skaðlega hugmyndafræði kommúnisma og sósíalisma
  • Tryggt hjálparstarf til svæða sem urðu fyrir barðinu á fellibyljum