Finninn Jan Forsbom, framkvæmdastjóri eignastýringar Glitnis, lætur af þeim störfum samkvæmt tilkynningu frá Glitni sem send hefur verið Kauphöll Íslands. Í tilkynningunni kemur fram að starfslokin tengist breytingum á framkvæmdastjórn Glitnis vegna aukinnar áherslu bankans á þrjú helstu markaðssvæði sín: Ísland, Norðurlöndin og alþjóðasvið.

"Í því sambandi hefur það orðið að samkomulagi að Jan Forsbom framkvæmdastjóri eignastýringar Glitnis hætti í framkvæmdastjórn Glitnis," segir í tilkynningunni. Forsbom var ráðinn framkvæmdastjóri hjá Glitni í maí á síðasta ári. Hann hefur haft starfsstöðvar sínar í Finnlandi.

Samkvæmt upplýsingum frá bankanum liggur ekki nákvæmlega fyrir hvenær Forsbom hættir.

Engar aðrar breytingar verða á framkvæmdastjórn bankans að því er fram kemur í tilkynningunni.