Vefmiðillinn Eyjan hefur efnt til þjóðarkosningar á netinu dagana 13. til 17. desember og í þessari þjóðarkosningu verður spurt um afstöðu kjósenda til Icesave-málsins.

Spurt er: „Vilt þú að Alþingi samþykki eða synji ríkisábyrgð á Icesave-samkomulaginu við Breta og Hollendinga?“ Svarmöguleikar eru þrír: „Alþingi samþykki ríkisábyrgð“, „Alþingi synji ríkisábyrgð“ og „Tek ekki afstöðu.“

Í tilkynningu frá Eyjunni kemur fram að notast sé við kerfið Íslendingaval sem er þróað af Íslenskri erfðagreiningu. Kerfið tryggir öryggi og nafnleynd.

Aðgangskóðar til þátttöku hafa verið sendir sem rafræn skjöl til kjósenda í gegnum heimabanka þeirra og geta þeir nálgast þá nú þegar og kosið.

Þegar hefur opnað fyrir kosningu er þegar hafin og áætlað er að henni verði lokið kl. 16:30 fimmtudaginn 17. desember. Niðurstöður verða kunngerðar strax í kjölfarið.

„Eyjan er óháður fjölmiðill á netinu sem leggur áherslu á að raddir almennings fái að heyrast,“ segir Guðmundur Magnússon ritstjóri Eyjunnar í tilkynningunni.

„Í því skyni er lesendum á hverjum degi gefinn kostur á að segja skoðun sína á fréttum og bloggfærslum á vefnum. Hafa tugþúsundir Íslendinga notfært sér þennan vettvang til að lýsa áliti sínu á mönnum og málefnum. Að bjóða upp á reglulegar þjóðarkosningar um stór mál fellur vel að meginstefnu Eyjunnar um að hlusta eigi eftir viðhorfum fólksins í landinu. Það er einnig í takt við ákall margra um beint lýðræði og vaxandi stuðning við að hluti kjósenda geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslum.“