Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, hefur boðað alla starfsmenn embættisins til fundar síðdegis á morgun.

Þetta kemur fram á vef Víkurfrétta.

Í samtali við Víkurfréttir vildi Jóhann ekki tjá sig um efni fundarins. Hann játaði því hins vegar aðspurður hvort stórra tíðinda yrði að vænta af fundinum.

Á vef Víkurfrétta kemur fram að greina má mikla undirliggjandi óánægju um öll Suðurnesin vegna þeirrar ákvörðunar Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, að auglýsa stöðu lögreglustjóra eftir að skipunartími hans rennur út næsta vor.

Þá kemur fram að stjórn Lögreglufélags Suðurnesja hefur lýst yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun dómsmálaráðherra í ályktun sem félagið sendi frá sér í byrjun vikunnar.