Jóhanna Kristjónsdóttir var í dag valin kona ársins af tímaritinu Nýju lífi. Í rökstuðningi fyrir valinu segir að Jóhanna hafi brúað bilið á milli Íslands og Miðausturlanda.

„Hún hefur látið sig varða lágt menntunarstig í Jemen og fyrir hennar tilverknað eru nú 132 jemensk börn styrkt til náms af Íslendingum. Í haust stóð hún fyrir glæsimarkaði í Perlunni þar sem safnað var fyrir nýju skólahúsi í Sanaa í Jemen," segir meðal annars í rökstuðningi fyrir valinu.

Jóhanna tók á móti viðurkenningu Nýs lífs á hátíðlegri samkomu í dag.

Jóhanna fékk einnig afhent listaverk eftir listakonuna Huldu Hákon og nýútkominn geisladisk með söng Guðrúnar Gunnarsdóttur.

Auk þess fékk Jóhanna ársáskrift að nýju lífi.