Um jólin myndast skemmtileg stemning í leikhúsunum því þá eru nýjar leiksýningar frumsýndar og mikill erill í kringum barnasýningar. Hjá sumum er það fastur liður að fara í leikhús um jólin og þá jafnvel á sömu sýninguna. Jólasýning Borgarleikhússins í ár er Mýs og menn, frumsýnd 29. desember. Hildur Harðardóttir, markaðsstjóri Borgarleikhússins, segir að jólafrumsýningin sé venjulega á þessum tíma og að jafnaði sú frumsýning sem hæst beri á árinu.

Í Þjóðleikhúsinu er einnig mikið um að vera um hátíðirnar. Barnasýningin Leitin að jólunum verður sýnd áttunda leikárið í röð. Fyrsta sýning verður 24. nóvember en það eru tíu leikarar sem taka þátt í uppsetningunni. Arna Bergljót Thorarensen, markaðs- og kynningarfulltrúi Þjóðleikhússins, segir þessa sýningu vera fastan lið í jólaundirbúningi hjá mörgum og uppselt hafi verið á hverja einustu sýningu frá upphafi. Annan í jólum er síðan sérstök stemning í leikhúsinu því þá er jólafrumsýning á Macbeth.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.