Danski bankinn Jyske Bank ráðleggur viðskiptavinum sínum að selja íslensk afleiðubréf og losa sig úr öllum gjaldeyrissamningum sem þeir kunni að eiga í fórum sínum, að því er kemur fram í viðskiptablaðinu Börsen í dag. Ástæðan fyrir umræddri hvatningu segir bankinn vera neikvæðar vísbendingar um þróun í hagkerfinu á Íslandi.

Undanfarin ár hafa verið gjöful fyrir danska fjárfesta sem hafa fjárfest í gjaldeyris- og afleiðuafurðum íslensks fjármálamarkaðar en núna metur Jyske Bank það svo að veislunni sé lokið. Styrking íslensku krónunnar og lækkun vaxta hefur hingað til gefið mikið í aðra hönd en útlit fyrir neikvæða þróun í hagkerfinu mun að sögn Ole Severinsen, starfsmanns Jyske Markets og höfundar greiningarinnar, leiða til tvöfalds höggs á núverandi eigendum íslenskra afleiða.

Að mati bankans er íslenska hagkerfið í hættu á ofhitnun þar sem verðbólga er komin nálægt 4% á ársgrundvelli og þar með nálægt því marki sem Seðlabanki Íslands getur sætt sig við. Ástæðuna fyrir aukinni verðbólgu segir Ole vera hækkandi olíuverð og sífelld verðhækkun á fasteignamarkaði. Þar að auki hefur sparnaður landsmanna verið að dragast saman á sama tíma og einkaneysla er í vexti.

Þrátt fyrir fjárfestingar í álversframkvæmdum, sem eiga að minnka áhættuna sem fylgir því að treysta um of á fiskveiðar og hefur leitt til styrkingu krónunnar, metur Jyske Bank það sem svo að ekki sé eftir meiru að slægjast. Danskir fjárfestar eigi því að selja alla pappíra frá eldfjallaeyjunni í norðri.