Stjórnendur bankanna bera fyrst og fremst ábyrgð á bankahruninu í haust, það má ekki gleymast í umræðunni þar sem allir eru að kenna öllum um.

Þetta sagði Kaarlo Jännari, sem í dag kynnti skýrslu sína um reglur og eftirlit með bankastarfsemi hér á landi en Jännari var fenginn hingað til lands í nóvember s.l. til að leggja mat á lagaumhverfi og framkvæmd fjármálaeftirlits á Íslandi og gera tillögur um nauðsynlegar úrbætur, en matið er hluti af samkomulagi stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS).

Á fundi með blaðamönnum síðdegis sagðist Jännari líta svo á að Íslendingar hefðu litið á íslenska bankamenn sem þjóðhetjur og því fáir þorað eða viljað efast um starfssemi bankanna opinberlega. Hann sagði stjórnendur bankanna fyrst og fremst bera ábyrgð á hruninu þó vissulega hefði margt farið illa hjá hinu opinbera í aðdraganda hrunsins.

Þá sagði Jännari að gallar væru á bæði evrópskum reglugerðum og eins framkvæmd og eftirliti þeirra hér á landi. Þar bæri hæst aðskilnað Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins (FME) en Jännari telur að sameina ætti þær stofnir hið fyrsta, í það minnsta færa þær undir sama ráðuneyti.

Hann sagði mikinn galla hafa verið fólginn í því að Seðlabankinn heyrði undir forsætisráðuneytið og FME undir viðskiptaráðuneytið en það fæli það í sér að lítil samskipti væru á milli þessara stofnana sem þó þyrftu að hafa náið samráð. Hann sagðist vera á þeirri skoðun að báðar stofnanirnar heyrðu undir fjármálaráðuneytið en það gæti þó orðið flókið þar sem fjármálaeftirlitið væri í dag eigandi nokkurra banka.

Jännari sagðist vera þeirrar skoðunar að Íbúðalánasjóður hefði átt sinn þátt í hruninu. Bankinn væri starfræktur með niðurgreiddum vöxtum og hefði „ögrað“ bönkunum út í erfiða samkeppni. Hann tók þó fram að hann hefði ekki hitt forsvarsmenn sjóðsins til að fá viðhorf þeirra en sagði Íbúðalánasjóð eiga stóran þátt í því að hafa hér blásið upp fasteignabólu sem síðar sprakk. Hann ítrekaði þó að Íbúðalánasjóður hefði aðeins verið hluti vandans, ekki orsök hans.

Þá sagði Jännari að best væri að Ísland gengi í Evrópusambandið innan fimm ára, þó ekki væri það nema einungis til þess að taka upp evru þar sem krónan væri of lítill gjaldmiðill.