Sænsk stjórnvöld hafa enn ekki fundið kafbát sem þeim barst ábending um að væri í nánd við Stokkhólm, höfuðborg Svíþjóðar. Leitinni verður haldið áfram en sænski herinn leitar úr lofti og legi.

„Við höldum áfram þar til við teljum að leitinni sé lokið,“ segir Jesper Tengroth í samtali við sænski miðilinn The Local . „Við erum að leggja mat á upplýsingarnar sem við fengum í gær, sem við teljum að komi frá trúverðuglegum heimildarmanni, til að sjá hvort þær reynist réttar eða ekki,“ bætir hann við.

Tengroth svaraði ekki spurningum blaðamanna frá hvaða ríki kafbáturinn er talinn vera og gat ekki gefið frekari upplýsingar um það hvort það væri talin stafa ógn af honum.

Mikilvægt að bregðast við

Stefan Ring, sérfræðingur í hermálum við sænska Varnarháskólann segir mikilvægt að brugðist sé við ábendingum sem þessum. „Ef við myndum ekkert aðhafast værum við að senda þau skilaboð til óvina okkar að þetta myndi ekki skipta okkur máli,“ segir Stefan.

Þann 3. október flaug rússnesk herþota inn í sænska lofthelgi og er það til marks um aukna spennu í samskiptum Rússa og Svía.