Iceland Seafood International (ISI) hefur gengið frá kaupum á spænska félaginu Elba S.L. Seljendur eru GPG seafood ehf., í eigu Gunnlaugs Karls Hreinsson og IceMar ehf., sem er rekið af hjónunum Gunnari Örlygssyni og Guðrúnu Hildi Jóhannsdóttur.

Félögin greindu fyrst frá kaupunum í nóvember, en nú hefur öllum fyrirvörum verið rutt úr vegi. Kaupverðið nemur 4,4 milljónum evra, um 610 milljónum króna á svokölluðum „debt free/cash free" grunni. Helmingur kaupverðsins er greiddur með reiðufé en afgangurinn með hlutabréfum í Iceland Seafood samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Elba er staðsett í Barselóna á Spáni og sérhæfir sig í sölu frosinna og létt saltaðra sjávarafurða á Spáni. Félagið velti 14,4 milljónum evra í fyrra og var með rekstrarhagnað fyrir afskriftir (EBITDA) 430 þúsund evrur.

Bjarni Ármannsson, forstjóri ISI, segist hlakka til að þróa Elba frekar. Kaupin styrki stöðu félagsins á Spáni, sem sé mikilvægur markaður fyrir íslenskan þorsk. Þá fagnar hann því að GPG Seafood og Icemar séu komin í hluthafahóp félagsins en félögin munu eignast 1,2% hlut í ISI.