Saga Capital Fjárfestingarbanki hf. og Marel hf. hafa gert samning sín á milli um að Saga Capital gerist viðskiptavaki með hlutabréf í Marel, fyrir eigin reikning Saga Capital. Samhliða samningi um markaðsvakt hefur verið gerður samningur milli Marel og Saga Capital um kaup hins síðarnefnda á 3.700.000 nýjum hlutum í Marel.

Fyrir er Landsbanki Íslands einnig með samning um viðskiptavakt að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Tilgangurinn með viðskiptavakt Saga Capital er að efla viðskipti með hlutabréf í Marel og stuðla að skilvirkri og gegnsærri verðmyndun hlutabréfa í félaginu. Hlutabréf Marel eru skráð á OMX Nordic Exchange á Íslandi.

Samningurinn tekur gildi í dag og er ótímabundinn en uppsegjanlegur með eins
mánaðar fyrirvara.

Skilmálar viðskiptavaktarinnar eru eftirfarandi:

-Saga Capital mun setja daglega fram kaup- og sölutilboð í hlutabréf Marel
(MARL) að lágmarki 200.000,- krónur að nafnverði á verði sem Saga Capital
ákveður í hvert skipti;

-Hámarksmunur á kaup- og sölutilboðum skal ekki vera meiri en 1,5%;

-Frávik frá síðasta viðskiptaverði ekki meira en 3%;

-Hámarksfjárhæð heildarviðskipta dag hvern skal vera kr. 100.000.000,- að
markaðsvirði.

Eftir hækkunina verður heildarhlutafé Marel hf 370.780.732 hlutir.