Kaupþing verður að eignarhaldsfélagi undir stjórn kjörinnar stjórnarkröfuhafa fari þrotabú bankans í tafarlausa nauðasamninga eins og stefnt er að. Unnið er að framlagningu slíkra samninga. Í kjölfarið mun félagið losna úr þeim lagahömlum sem hvíla á starfsemi skilanefnda og slitastjórna, kröfuhafarnir fá aukið svigrúm til að hámarka arð af reiðufjársjóðum og hámörkun virðis verður höfð að leiðarljósi með innheimtu fjársölu eigna og lausn annarra eigna. Þetta kemur fram í kynningu sem haldin var á kröfuhafafundi Kaupþings 30. ágúst síðastliðinn. Viðskiptablaðið hefur kynninguna undir höndum.

Heimildir blaðsins herma auk þess að endurskoðendafyrirtæki vinni nú að gerð efnahagsreiknings fyrir eignarhaldsfélagið sem stofnað verður. Það mun meðal annars eiga 86% hlut í Arion banka, þriðja stærsta banka þjóðarinnar, verði nauðasamningar samþykktir. Skilanefndir gömlu bankanna þriggja verða lagðar niður í síðasta lagi í lok þessa árs og slitastjórnir munu taka við hlutverki þeirra verði ekki búið að setja bankana annaðhvort í þrot eða koma þeim í gegnum nauðasamninga.

Eins skjótt og auðið er

Á kröfuhafafundinum í lok síðasta mánaðar kynnti Steinar Þór Guðgeirsson, formaður skilanefndar Kaupþings, þær leiðir sem væru færar í slitameðferð á bankanum. Áður hefur komið fram opinberlega að skilanefnd og slitastjórn telja að hagsmunum kröfuhafa Kaupþings sé best borgið með endurskipulagningu á starfseminni, ekki gjaldþroti. Unnið hefur verið að þeirri lausn í samráði við bandaríska bankann Morgan Stanley sem hefur veitt skilanefndinni fjármálaráðgjöf. Í kynningunni segir að markmiðið sé „að tryggja samfelldan stuðning við eignirnar og byggja upp skipulag þar sem kröfuhafar geta losað um eignarhald sitt er fram líða stundir“. Þar segir einnig að þeir kröfuhafar sem hafi tjáð skoðun sína á málinu telji æskilegast fyrir „Kaupþing að leita nauðasamninga eins skjótt og auðið yrði og ennfremur að gjaldþrotaskipti væri sísti kosturinn“.

Skýrslu skilað í júní 2011

Í máli Steinars kom fram að framvinda þess að koma þessum vilja í framkvæmd hafi miðað vel. Houlihan Lokey Limited og Deutsche Bank Advisory Service hafi verið fengin til að gera áreiðanleikakönnun (e. asset review) um eignir Kaupþings og vinna greiningu á þeim eins og þær voru um síðustu áramót. Erlendu ráðgjafarnir luku við gerð skýrslu um áreiðanleikakönnunina og eignargreininguna í júní 2011. Sú skýrsla mun síðan verða grundvöllur að mögulegri tillögu um nauðasamninga.