Lagabreytingar sem gerðar voru í síðasta mánuði koma til með að rýmka heimildir fanga á Kvíabryggju, þeirra Sigurðar Einarssonar, Magnúsar Guðmundssonar og Ólafs Ólafssonar, til þess að afplána fangelsisvist sína gegnum svokallað rafrænt eftirlit, sem er liður í betrunar

Fangarnir þrír verða fluttir til áfangaheimilisins Verndar í dag, en samkvæmt ákvæðum um rafrænt eftirlit verða þeir að vera þar frá 23:00-7:00 hverja nótt undir fyrirkomulaginu. Þeir verða með rafrænan sendingarbúnað á sér svo hægt sé að fylgjast með ferðum þeirra, en annars eru þeir hér um bil frjálsir ferða sinna þar til kvölda tekur.

Sigurður Einarsson var stjórnarformaður Kaupþings fyrir hrun, Magnús Guðmundsson var fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg og Ólafur Ólafsson var einn stærsti hluthafi Kaupþings - en allir hlutu þeir fangelsisdóma vegna efnahagsbrota. Dómarnir eru frá fjórum til fimm árum, en þeir hafa afplánað um eitt ár af þeim.

Breyting á löggjöf um rafrænt eftirlit, sem var samþykkt af allsherjar- og menntamálanefnd, veldur því að fyrir hvern mánuð sem fangi afplánar fær hann 5 daga undir rafrænu eftirliti í stað 2,5 daga. Undir nýju lögunum fá þeir því 240 daga í rafrænu eftirliti fyrir fjögurra ára fangelsisvist.

Fréttaflutningur um málið í dag hefur ýjað að því að löggjöfin sé „sérhönnuð” fyrir þessa þrjá tilteknu fanga - en Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata, sem á sæti í allsherjar- og menntamálanefnd, segir að svo ég ekki - „þingmenn geti ekki hagað störfum sínum eftir því hvort almenningi sé í nöp við tiltekna fanga.”