Í nýrri skýrslu Seðlabanka Bandaríkjanna sem birt var eftir lokun markaða Vestanhafs í gær kemur fram að samdrátt í framleiðslu í síðasta mánuði í Bandaríkjunum megi að einhverju leyti rekja til slæms veðurs undanfarnar vikur. Dróst framleiðsla saman um 0,8% í janúarmánuði sem er mesti samdráttur sem mælst hefur í Bandaríkjunum í rúm fjögur ár.

Iðnaðarframleiðsla í heild sinni, þar sem hitaveitur og námuvinnsla eru meðtalin, dróst saman um 0,3%. Minni samdrátt í iðnaðarframleiðslu má einnig rekja til veðursins, en í skýrslu Seðlabanka Bandaríkjanna er bent á að hitaveitunotkun hafi aukist um 4,1% á milli ára í janúar sökum þess hve kalt hefur verið í Bandaríkjunum nú í upphafi árs. Bendir seðlabankinn á að margar bílaverksmiðjur hafi þurft að loka í einn eða fleiri daga sökum veðurs í síðasta mánuði sem hafi leitt af sér minni framleiðslu. Iðnaðarframleiðendur í Bandaríkjunum hafa varað við því að slæm veðurskilyrði muni án efa koma niður á framleiðslutölum fyrir fyrsta fjórðung ársins 2014.

Samkvæmt fréttamiðlum í Bandaríkjunum er ekki búist við því að Seðlabanki Bandaríkjanna breyti eignasölustefnu sinni, sem er að miklu leyti háð efnahagsástandinu, í kjölfar nýjustu framleiðslutalna.