Ný-sjálenski dalurinn hækkaði í dag og hefur gjaldmiðillinn styrkst um 1,8% í vikunni fyrir páska eftir aukningu í einkaneyslu.

Kiwi-dalurinn tók að veikjast samhliða veikingu íslensku krónunnar, sem sumir segja að hafi smitað aðra hávaxtagjaldmiðla, og hafði veikst um 13% í lok síðustu viku, samkvæmt upplýsingum Financial Times.

Sérfræðingar segja ástæðuna fyrir lækkuninni vera að seðlabanki Nýja-Sjálands gæti hugsanlega lækkað stýrivexti til að ýta undir einkaneyslu, sem hefur verið að dragast saman. Aukning í einkaneyslu umfram væntingar hefur því stuðlað að styrkingu vikunnar.

Líkt og á Íslandi hefur mikill vaxtamunur leitt til þess að fjárfestar taka stöður í kiwi-dalnum, sem eru fjármagnaðar með lánum í gjaldmiðlum lágvaxtalanda.

Væntingar um stýrivaxtahækkanir í Evrópu, Bretlandi, Japan og Bandaríkjunum hafa einnig ýtt undir veikingu kiwi-dalsins, sem og íslensku krónunnar.