Rétt eins og svo margt annað í samfélagi manna hefur knattspyrna breyst þónokkuð í gegnum tíðina. Rúnar Kristinsson, sem er í ítarlegu viðtali við Áramótarit Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, hefur verið viðloðandi knattspyrnu um nokkurra áratuga skeið. Hann segir að flest allt í umhverfi knattspyrnunnar hafi tekið miklum framförum frá því að hann var sjálfur leikmaður.

„Öll aðstaða til knattspyrnuiðkunar hér á landi hefur tekið miklum framförum og má þar sem dæmi nefna vallaraðstæður, uppbyggingu knattspyrnuhalla og umgjörð fyrir leikmenn og stuðningsmenn. Taktík hefur breyst mikið og leikmenn eru orðnir mun flinkari með boltann en áður. Þá hefur menntun þjálfara aukist talsvert sem og aðgengi að knattspyrnuleikjum í þessum bestu deildum erlendis.

Hér á Íslandi getum við fylgst með bestu liðunum spila í beinni útsendingu flesta daga vikunnar, séð hvernig þau eru að spila og lært af þeim. Þessar framfarir kristallast svolítið í íslenska karlalandsliðinu sem hefur núna tekið þátt í síðustu tveimur stórmótum; Evrópumeistaramótinu og Heimsmeistaramótinu.

Þó að liðið sé þekktast fyrir sterkan varnarleik þá getur það einnig haldið boltanum vel innan liðsins, en það er eitthvað sem landsliðið átti á árum áður í erfiðleikum með. Þetta stafar af því að flest allir leikmenn landsliðsins eru með betri tæknilega getu en þeir leikmenn sem voru áður í landsliðinu og sömuleiðis af betri kunnáttu þjálfaranna á taktík.

Það hefur því mikil þróun átt sér stað innan knattspyrnunnar og íþróttin mun halda áfram að þróast. Með allri þessari tækni höfum við þróast mikið sem knattspyrnuþjóð en það er enn mikið svigrúm til þess að bæta okkur enn frekar."

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér.