Tvö skemmtiferðaskip eru væntanleg hingað til lands í mars á næsta ári. Skipin koma hingað með farþega sem vilja sjá sólmyrkja sem verður hér 20. mars á næsta ári. Björn Einarsson, framkvæmdastjóri TVG-Zimsen, sem þjónustar skemmtiferðaskipin sem koma hingað, segir í tilkynningu um nýbreytni að ræða enda vilji farþegar í meiri mæli en áður koma hingað til að sjá norðurljósin.

Skemmtiferðaskipin heita Marco Polo og Discovery. Þar að auki kemur til Reykjavíkur í júlí á næsta ári skemmtiferðaskipið Disney Magic. Skipið stoppar yfir nótt við Skarfabakka.

Nú styttist óðum í að fyrstu skemmtiferðaskip sumarsins komi til landsins en segja má að þau séu eins og vorboðinn. Búist er við rúmlega hundrað þúsund ferðamönnum til landsins með skemmtiferðaskipum í sumar sem er svipaður fjöldi og á síðasta ári.

Fleiri vilja sjá norðurljósin

Í tilkynningu er haft eftir Birni hjá TVG-Zimsen:

„Það er augljóst að vægi Íslands sem viðkomustaðar fyrir skemmtiferðaskip er sífellt að aukast. Við finnum það hjá erlendum skipaútgerðum að áhugi ferðamanna á siglingum hingað eykst ár frá ári og þar horfa menn á að Ísland sé í lykilhlutverki á Norðurslóðum. Verið er að brydda upp á nýjungum í siglingum eins og þessi aukna flóra skemmtiferðaskipa hingað til lands sýnir. Norðurljósin hafa gríðarlegt aðdráttarafl eins og Norðurljósasiglingarnar eru gott dæmi um og sigling Disney Magic er undir áhrifum frá Disney myndinni Frost. Þetta býður augljóslega upp á ný og mikilvæg tækifæri fyrir okkur Íslendinga. Það eru klárlega mjög spennandi tímar framundan í þessum geira,“ segir hann.