Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segir mikilvægt að ljúka Icesave-málinu. „Við þurfum að byggja upp traust," segir hún í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

„Við erum ekki eyland. Við stundum gríðarlega mikil utanríkisviðskipti og erum háð þeim. Það hefur án efa verið gríðarlega kostnaðarsamt fyrir okkur að vera með rauðu ljósin blikkandi í vetur vegna þess að ekki var vitað hvort við ætluðum að greiða skuldir okkar eður ei. Það verður því gríðarlegur léttur fyrir inn- og útflutningsfyrirtæki þegar þetta er frá."

Þegar hún er spurð út í gagnrýni á Icesave-samningana og sömuleiðis það viðhorf að Íslendingum beri jafnvel engin skylda til að borga eitt né neitt svarar hún því til að hún sé því ósammála. „Flest álit sem við höfum séð sýna að við eigum að borga. Við innleiddum líka þetta tryggingarkerfi og gengumst við því að greiða lágmarkið. Við þurfum að vinna okkur út frá þeirri stöðu og það hafa stjórnvöld gert allt frá hruninu."

Hvað viltu segja um þá gagnrýni að almenningur sé ekki upplýstur um öll gögn sem tengjast málinu?

„Ég veit ekki betur en að öll gögn sem tengdust málinu fylgdu frumvarpinu. Það hafa dúkkað upp einhver önnur skjöl, punktar frá einstaka lögmannsstofum sem hafa verið sendir en ekki unnir fyrir ráðuneytin. Ég efast um að það eigi að tína allt svoleiðis til. Mjög margir vildu vinna fyrir íslenska ríkið og voru að reyna selja sig og sína þjónustu eins og við höfum nú séð dæmi um. Þessir aðilar tóku reyndar sjálfir fram að ekki væri um álit að ræða heldur hraðsoðna punkta og báðu því um trúnað. Öll skjöl sem skiptu einhverju máli voru hins vegar notuð í ferlinu og við samningagerðina. Engu á að leyna og enn eru menn að vinna ný skjöl tengd málinu og eru þau birt svo að segja jafnóðum á vef Alþingis undir viðkomandi máli."

Telurðu að hægt hefði verið að ná betri samningum?

„Ég get ekki sagt til um það. Við sendum fólk sem við treystum til að fara í þetta verkefni og það kom til baka með þessa samninga. Það er aldrei hægt að ná fram sínum ítrustu kröfum í samningum. Það þarf alltaf að semja sig niður á einhverja niðurstöðu. Hvorugur aðilinn kemur ánægður frá samningaborðinu."

Nánar er rætt við Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra í Viðskiptablaðinu í dag.