Portúgölsk stjórnvöld hafa undanfarið þráfalldlega neitað orðrómu um  að eiga í erfiðleikum með að fjármagna ríkissjóð landsins.

Krafa á 10 ára ríkisskuldabréfa fór í dag í  tæplega 7,6% og hefur aldrei verið jafn há frá því að Portúgal tók upp evru en landið var eitt af stofnaðilum evrópska myntsamstarfsins 1. janúar 1999.

Seðlabanki Evrópu hóf í kjölfarið kaup á skuldabréfum og lækkaði krafan niður í 7,2%.  Þetta vakti upp áhyggjur markaðsaðila að Portúgal þyrfti neyðaraðstoð líkt og Grikkland og Írland hafa fengið.

Pedro Silva Pereira ráðherra í ríkisstjórn landsins sagði í dag við BBC að hann teldi þetta ekki snúast um áhyggjur manna af Portúgal sínu heldur almennt af því hversu miklar skuldir Evrópulandanna eru.

Portúgal seldi skuldabréf í útboðum í síðasta mánuði fyrir 1,25 milljarða evra, tæplega 200 milljarða króna, sem eru til fjögurra og tíu ára. Meðalkrafan í útboðunum var 6,7%.