Innlimun Rússa á Krímskaga og viðskiptaþvinganir Vesturlanda gegn nánum samstarfsmönnum Vladimír Pútín geta komið niður á tónleikahaldi bandarísku poppstjarnanna Miley Cyrus og Justin Timberlake í Hartwall Areena-tónleikahöllinni í Helsinki í Finnlandi í maí og júní. Fram kemur í breska dagblaðinu Financial Times að eignarhaldið á tónleikahöllinni sé vandamál. Þrír Rússar eiga nefnilega staðinn og eru þeir allir á svörtum lista bandarískra yfirvalda.

Einn þremenninganna er Gennady Tímsjenkó, einn af ríkustu mönnum Rússlands. Hann á helmingshlut í Hartwall Areena í gegnum félagið Arena Events Oy. Þeir sem eiga staðinn á móti honum eru bræðurnir Arkady og Boris Rotenberg. Þeir eru jafnframt á svarta listanum. Auk þess að vera með ríkustu mönnum Rússlands æfa þeir jafnframt júdó með Pútín.