Anton Siluanov, fjármálaráðherra Rússlands, segir lækkandi heimsmarkaðsverð á olíu kosta Rússa 100 milljarða bandaríkjadollara á ári. BBC News greinir frá þessu.

Nýjar fréttir gefa til kynna að Rússland gæti minnkað framleiðslu á olíu um 300 þúsund tunnur á dag í þeim tilgangi að ná upp verðinu. Lækkandi olíuverð er þó ekki það eina sem plagar rússneskan efnahag þessa dagana, því viðskiptaþvinganir annarra ríkja gegn Rússlandi hafa kostað landið um 40 milljarða dollara, að sögn Siluanov.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur fallið hratt síðan í sumar, meðal annars vegna minni eftirspurnar í Evrópu og Asíu. Brent Norðursjávarolía hefur fallið um meira en þriðjung og fór niður í tæpa 77 dollara á tunnu þann 14. nóvember síðastliðinn. Þá hafði verðið ekki verið lægra í fjögur ár.

Sérfræðingar búast við því að aðildarríki OPEC samþykki að draga úr framleiðslu á olíu til þess að sporna gegn frekari verðlækkun.