Kínversk hlutabréf lækkuðu í verði í nótt þrátt fyrir að seðlabanki landsins tilkynnti stýrivaxtalækkun og lækkaði bindisskyldu bankanna þar í landi í gær.

Vísitalan í kauphöllinni í Shanghai lækkaði um 1,27% og Hang Seng-vísitalan í Hong Kong lækkaði um 1,52%. Hins vegar hækkaði gengi Nikkei-vísitölunnar í Japan um 3,2% í viðskiptum dagsins.

Seðlabanki Kína tilkynnti fyrir opnun markaða lækkun stýrivaxta um 0,25 prósentur og lækkaði auk þess bindisskyldu bankanna um 0,5 prósentur. Var aðgerðunum ætlað að veita auknu fjármagni í hagkerfið til þess að sporna gegn frekari lækkunum á hlutabréfamörkuðum.

Evrópsk hlutabréf hafa einnig lækkað í verði frá því markaðir opnuðu þar núna í morgun, en gengi þeirra hækkaði í gær eftir að kínverski seðlabankinn kynnti aðgerðirnar. Í dag hefur FTSE-vísitalan í Lundúnum lækkað um 1,1%, Dax-vísitalan í Frankfurt um 0,65% og Cac-vísitalan í París um 0,84%.