Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir ótrúlega erfitt að gera sér grein fyrir þeim breytingum sem hafa átt sér stað í fjármálakerfinu frá hruni.

Hvaða breytingar hafa verið gerðar á leikreglum fjármálamarkaðarins og eftirliti með starfsemi fyrirtækja undanfarin ár?

„Það er eiginlega ómögulegt að hafa yfirsýn yfir allar þær breytingar sem hafa verið gerðar frá hruni. Almennt eru strangari kröfur gerðar til fjármálafyrirtækja í dag heldur en fyrir hrun, svo sem með varúðarkröfum til að styrkja viðnámsþrótt fjármálakerfisins, tryggja skilvirkni og stöðugleika og styrkja umgjörðina fyrir úrlausn fjármálaáfalla í framtíðinni.

Í löggjöf hefur verið lögð meiri áhersla á áhættumat og fjármálastöðugleika. Fjármálastöðugleikaráð var stofnað sem og kerfisáhættunefnd, og er ég fulltrúi í báðum. Framvirkt eftirlit, þ.e. eftirlit með núverandi áhættu í rekstri og mögulegri áhættu í framtíðinni, hefur eflst verulega, t.d. með varúðarkröfum fjármálafyrirtækja. Má þar nefna kröfur á borð við eiginfjárog lausafjárkröfur og viðbótar eigið fé (eiginfjárauka), sem eru í samræmi við áhættutöku og heildstætt mat okkar áhættu viðkomandi fyrirtækis skv. svokölluðu SREP-ferli.

Ástæðan fyrir því að áhættumiðað eftirlit hefur fengið aukið vægi er tvíþætt. Annars vegar er það að einn mikilvægasti lærdómur alþjóðlegu fjármálakreppunnar að fjármálastarfsemi er flóknari og óstöðugri en áður var talið. Hins vegar er kerfisáhætta meiri og áhættudreifing minni í litlu opnu hagkerfi með sjálfstæða mynt og þrjá stóra og kerfislega mikilvæga alhliða banka heldur en í stærri hagkerfum.

Árið 2010 voru ákvæði um stjórnarhætti endurskoðuð og aftur 2015. Ábyrgð stjórna var skerpt og kröfur um óhæði og hæfni stjórnarmanna hertar. Við metum hæfi, reynslu og þekkingu stjórnarmanna og framkvæmdastjóra allra eftirlitsskyldra aðila til að ákvarða stefnu og áhættutöku, og fylgjumst með stjórnarbreytingum.

Reglusetningarhlutverkið gegnir einnig stærra hlutverki í dag vegna þátttöku okkar í EES. Fyrstu árin eftir fjármálakreppu voru meira eða minna einungis innleidd séríslensk ákvæði sem þrengdu heimildir. En eftir að evrópsku eftirlitsstofnanirnar voru stofnaðar árið 2011 hafa þær verið að dæla út ótrúlegu magni af nýju regluverki sem okkur ber að innleiða samkvæmt einsleitniskröfunni í EES-samningnum.

Í löggjöfinni um rekstur vátryggingafélaga hafa átt sér stað stórar breytingar, ekki síst með nýlegri innleiðingu á Solvency II tilskipunum Evrópusambandsins, sem ætlað er að styrkja viðnámsþrótt vátryggingafélaga og bæta áhættustýringu. Félögin þurfa nú að beita varfærni í fjárfestingum, en þeim er frjálst að fjárfesta í hvaða fjármálagerningum sem er ef til er eigið fé á móti.“

Ódýrasta ráðgjöfin á markaðnum

Hvaða breytingar hafa átt sér stað innanhúss hjá FME undanfarin ár?

„Í kjölfar hrunsins var ríkur vilji hjá Alþingi að styðja við uppbyggingu FME á meðan dregið var úr stuðningi til annarra ríkisstofnana, enda kom mikil gagnrýni á FME og stjórnvöld fyrir að eftirlitið hefði verið ófullnægjandi. Á meðan við vorum með stóru rannsóknarverkefnin eftir hrun var stofnunin stærri en hún er núna. Undanfarin ár hefur verið stöðugleiki við um 117 manns.

Við höfum verið að fá mörg ný verkefni með nýrri löggjöf án þess að hafa fjölgað starfsfólki. Þess í stað höfum við endurbætt skipulagið jafn óðum. En núna erum við að nálgast þolmörkin, þar sem við treystum okkur ekki til þess að taka við nýjum verkefnum án þess að fá inn nýtt fólk.

Það hefur síðan verið tekin stefnumarkandi ákvörðun um það hjá okkur að vera sýnilegri og beita okkur meira í neytendaverndarmálum. Við erum bundin mjög ríkri trúnaðarskyldu og það er mikil ábyrgð að búa yfir öllum þeim upplýsingum sem við gerum. Það er samt nauðsynlegt að við komum á framfæri faglegum upplýsingum. Þess vegna höfum við aukið útgáfustarfsemi og munum halda því áfram.“

Fyrir hrun var FME gagnrýnt fyrir ónægt eftirlit. Í dag er FME gagnrýnt fyrir of mikið eftirlit. Hvað hefur þú að segja við því?

„Ég er eiginlega hissa á því að gagnrýnin hafi ekki verið meiri en raun ber vitni! Það er auðvitað skilningur hjá okkur á því að það er mjög fyrirhafnasamt, kostnaðarsamt og tímafrekt að útvega okkur gögn, upplýsingar og skýrslur. En eftirlitið og reglusetningin miðar að því að bæta rekstur fjármálafyrirtækja og hafa hömlur á áhættu. Það er gagnlegt að fyrirtæki læri að líta á þetta sem rekstrarráðgjöf. Ég segi stundum við stjórnendur eftirlitsskyldra aðila að við séum ódýrustu rekstrarráðgjafarnir á markaðnum. Þeir mótmæla því sjaldnast.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .