Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra stóð í dag fyrir morgunverðarfundi hóps 23 ríkja sem Ísland og Namibía stofnuðu á síðasta ári um landgræðslumál hjá Sameinuðu þjóðunum.

Gunnar Bragi sagði á fundinum í morgun að mikilvægt væri að landgræðslumál fái aukinn sess í þróunarstarfi til þess að koma í veg fyrir afleidd vandamál á borð við matvælaskort, meiriháttar fólksflutninga og átök sem geta orðið vegna landeyðingar og þurrks. Þess vegna leggur Ísland ríka áherslu á að markmið í landgræðslumálum verði meðal nýrra þróunarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.

Hann sagði landgræðslumálin vera ekki síst áhugaverð vegna þess að þau leiði saman ólíkar þjóðir, með ólíka reynslu og stöðu mála. Ísland hefur tekist á við landeyðingu í áratugi og hefur því tækifæri til þess að miðla af reynslu sinni.

Utanríkisráðherra ræddi landgræðslu einnig á ráðherrafundi SÞ um sjálfbæra þróun og hin nýju þróunarmarkmið stofnunarinnar. Talaði hann um reynslu Íslands af landeyðingu og hvernig unnið hefur verið að því að ná jafnvægi með landgræðslu. Hún væri tvímælalaust öflugt vopn í baráttunni gegn hungursneyð, fyrir bættri næringu íbúa heimsins og stuðlaði að sjálfbærri nýtingu lands. Án sjálfbærrar landnýtingar yrði ekki mögulegt að fæða níu milljarða manna árið 2050,  berjast gegn fátækt og hlýnun jarðar ásamt því að vernda fjölbreytileika náttúrunnar.

Hluti af ráðherrafundinum fjallaði um mikilvægi fjölþjóðlegrar samvinnu.  Þar benti utanríkisráðherra á góða reynslu af samstarfi Íslands og Háskóla Sameinuðu þjóðanna um starfsemi skólanna fjögurra sem staðsettir eru á Íslandi, á sviði jarðvarma, sjávarútvegs, landgræðslu og jafnréttismála.