*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 3. maí 2018 16:31

Landsbankinn hagnast um 8,1 milljarð

Arðsemi eigin fjár bankans hækkaði úr 12,5% í 13,7% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi.

Ritstjórn
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
Aðsend mynd

Landsbankinn hagnaðist um 8,1 milljarð króna á fyrsta ársfjórðungi ársins sem er betri afkoma en var á sama tímabili í fyrra þegar bankinn hagnaðist um 7,6 milljarða króna. Arðsemi eigin fjár hækkaði jafnframt úr 12,5% á fyrsta fjórðungi 2017 í 13,7% á fyrsta fjórðungi 2018. 

Afkoma Landsbankans dregur upp allt aðra mynd en uppgjör Arion banka sem Viðskiptablaðið greindi frá í gær. Hagnaður Arion banka dróst saman um 42% á fyrsta ársfjórðungi milli ára og nam 1,9 milljörðum króna en arðsemi eigin fjár Arion banka var aðeins 3,6%.

Rekstrartekjur Landsbankans fyrstu þrjá mánuði ársins námu 16,8 milljörðum króna samanborið við 15,7 milljarða á sama tímabili í fyrra. Kostnaðarhlutfall bankans var 37,9% og lækkar um tæð 4,6 prósentustig á milli ára.

Eiginfjárhlutfall bankans lækkaði um 2 prósentustig frá árslokum og stendur nú í 24,7%.

Þá hækkaði handbært fé bankans um rúma 26,5 milljarða frá því í árslok 2017 og stóð í 80,1 milljarði króna í lok fyrsta ársfjórðungs.