Japanska matsfyrirtækið R&I (Rating and Investment Information) hefur staðfest lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands fyrir erlendar skuldbindingar, BB+. Á sama tíma hefur fyrirtækið breytt horfum úr neikvæðum í stöðugar.

Íslensku viðskiptabankarnir
Íslensku viðskiptabankarnir
© BIG (VB MYND/BIG)

Í rökstuðningi matsfyrirtækisins segir að kreppan hafi náð botni á fjórða ársfjórðungi fyrir ári. Stjórnvöld hafi bætt sig síðan þá, kallað tiltölulega snemma eftir hjálp hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, dregið mjög úr halla í ríkisrekstri, atvinnuleysi farið úr 9,8% í 6,7% og viðbúið að hagvöxtur verði 3,1% á þessu ári. Á hinn bóginn eigi enn eftir að endurskipuleggja hluta af skuldum fyrirtækja, skuldir hins opinbera séu enn miklar, 86% af landsframleiðslu auk þess sem ekki sé búið að setja punkt aftan við Icesave-málið.

Þá segir í umfjöllun matsfyrirtækisins um íslenskt efnahagslíf að rétt hafi verið hjá ríkisstjórninni að koma ekki gömlu bönkunum til hjálpar þegar gaf á bátinn haustið 2008. Farsælla hafi verið að láta bankana fara á hliðina og láta erlenda kröfuhafa sitja uppi með tapið. Hefði verið reynt að bjarga bönkunum má ætla að kreppan hér hefði orðið mun dýpri og skuldir ríkisins hrannast upp.

R&I segir forvitnilegt að fylgjast með því hvernig stjórnvöldum gengur að laða erlenda fjárfesta aftur til landsins eftir bankahrunið, að sögn því er segir í umfjöllun matsfyrirtækisins.