„Höfnun íslenskra kjósenda á lögum um endurgreiðslu Icesave skuldar í þjóðaratkvæðagreiðslu hefur engin tafarlaus áhrif á lánshæfismat Ríkissjóðs Íslands,“ segir í nýrri skýrslu matsfyrirtækisins Standard & Poor's. Fyrirtækið sér tilefni til að uppfæra matskýrslu um Ísland eftir atkvæðagreiðsluna og stöðu Icesave viðræðanna. Lánshæfiseinkunn ríkissjóðs verður óbreytt í erlendri og innlendri mynt. Þá verður ríkissjóður áfram á athugunarlista með neikvæðum horfum.

Að mati greinenda S&P felur niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um helgina ekki í sér að Ísland ætli ekki að standa við alþjóðlegar skuldbindingar. Niðurstaðan endurspegli vanþóknun Íslendinga á þeim skilyrðum sem sett voru fyrir lánafyrirgreiðslu Breta og Hollendinga til að fjármagna samninginn. Þá telja þeir að ríkissjórnin muni ekki segja af sér í kjölfar niðurstöðunnar.

„Við álítum að atkvæðagreiðslan leiði til nýrra samningaviðræðna við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um endurhönnun efnahagsáætlunarinnar, í því skyni að draga úr hlut erlendrar fjármögnunar. Á sama tíma teljum við mögulegt að norrænu ríkisstjórnirnar eða aðrir alþjóðlegir  samstarfsaðilar muni sýna sveigjanleika og veita lán, á meðan ríkisstjórn Íslands heldur áfram að semja við bresk og hollensk stjórnvöld um lausn Icesave-málsins í góðri trú. Við vekjum athygli á að Norðurlöndin veittu fyrsta hluta lánsins í desember 2009, jafnvel þótt Icesave-lögin hafi ekki verið komin í gegnum þingið eins og í fyrstu var gerð krafa um, heldur aðeins verið samþykkt af ríkisstjórninni. Við teljum að ákvarðanir um útgreiðslu lánsfjár í framhaldinu muni ákvarða hve sterk samningsstaða Íslands verður í samningaviðræðum við Bretland og Holland," segir í þýðingu Seðlabankans á áliti S&P.