Launakostnaður fjögurra stærstu hótelkeðja landsins, Flugleiðahótel, Íslandshótel, Keahótel og Centerhotels, nam samtals um 13,5 milljörðum króna á síðasta ári og jókst um 10,3% á milli ára. Launahlutafall sem reiknað er sem launakostnaður sem hlutfall af tekjum var að meðaltali 39% og lækkaði um 0,6 prósentustig á milli ára og lækkaði hlutfallið hjá öllum keðjunum nema einni milli ára. Heilsársstöðugildi voru samtals 1.941 og fjölgaði um 130 á milli ára. Laun og launatengd gjöld námu samtals um 5,5 milljörðum hjá Flugleiðahótelum á síðasta ári og jukust um 8,5% á milli ára en heilsársstöðugildi voru 699 á árinu og fjölgaði um 22 milli ára. Meðallaunakostnaður á hvern starfsmann var því um 656 þúsund í hverjum mánuði og hækkaði um 5,1% milli ára. Þá var launahlutfall 45,4% og lækkaði um 1,7 prósentustig. Þrátt fyrir það var hlutfallið áberandi hæst hjá Flugleiðahótelum eða um 4,9 prósentustigum hærra en hjá næstu keðju.

Sjá einnig: Hótelrisarnir þenjast út

Launakostnaður Íslandshótela nam 4,9 milljörðum á síðasta ári og jókst um 3,5% milli ára en heilsársstöðugildum fækkaði um 18 á árinu en þau voru 757. Meðallaunakostnaður á hvern starfsmann var um 540 þúsund í hverjum mánuði og hækkaði um 5,9% milli ára.

Hjá Keahótelum nam launakostnaður tæplega 1,5 milljörðum króna og hækkaði um 38,2% milli ára. Heilsársstöðugildi voru 261 talsins og fjölgaði þeim um 96 milli ára og var meðallaunakostnaður á starfsmann í hverjum mánuði 471 þúsund og lækkaði um 12,6% milli ára. Launahlutfall Keahótela var það eina sem hækkaði á milli ára en það var 35,5% og hækkaði um 2,3 prósentustig á milli ára.

Þá nam launakostnaður Centerhotels tæplega 1,7 milljörðum og hækkaði um 18,8% milli ára en þar fjölgaði heilsársstöðugildum um 30 og voru þau 224 á síðasta ári. Launahlutfall félagsins lækkaði um 1,7 prósentustig á milli ára en það var 34,6% á síðasta ári. Meðallaunakostnaður á starfsmann í hverjum mánuði var 615 þúsund hjá Centerhotels og hækkaði um 2,9% á milli ára. Rétt er að taka fram að með meðallaunakostnaði á hvern starfsmann er átt við allan launakostnað deilt með heilsársstöðugildum. Er því um að ræða allan launakostnað hótelkeðjanna sem endurspeglar ekki heildarlaun starfsmanna að fullu.

Hlutfallið lítið hækkað

Óhætt er að segja að hótelin hafi verið í hringiðjunni í kjarabaráttunni síðastliðið vor enda voru þau fyrstu fyrirtækin til að verða fyrir verkfallsaðgerðum verkalýðsfélaganna. Þegar launakostnaður hótelkeðjanna er skoðaður lengra aftur í tímann kemur í ljós að launahlutfall þeirra hefur hækkað frá árinu 2015 en þó ekki nærri jafn mikið og t.d. í tilfelli bílaleiga eða rútufyrirtækja þar sem hlutfallið hefur hækkað um allt að 7 prósentustig.

Heildarlaunahlutfall hótelkeðjanna hefur að meðaltali hækkað um 0,7 prósentustig frá árinu 2015 en þróunin hefur þó verið ólík milli félaga. Þannig hefur launahlutfall Flugleiðahótela lækkað um 3,2 prósentustig, hjá Íslandshótelum hefur hlutfallið hækkað um 2,5 prósentustig, um 3,6 prósentustig hjá Keahótelum á meðan launahlutfall Centerhotels hefur nær staðið í stað. Þegar launahlutfall stærstu hótelkeðjanna er skoðað er þó rétt að hafa í huga að meirihluti þeirra hótela sem þau eru með í rekstri er á höfuðborgarsvæðinu.

Í skýrslu sem KPMG vann fyrir ferðamálastofu um afkomu hótelfyrirtækja á síðasta ári kom meðal annars í ljós að launahlutfall á höfuðborgarsvæðinu var um 8,5 prósentustigum lægra á höfuðborgarsvæðinu en það var á landsbyggðinni. Þannig var launahlutfall á höfuðborgarsvæðinu 36,3% og lækkaði um 0,2 prósentustig á milli ára á meðan launahlutfall á landsbyggðinni var 44,8% og hækkaði um 1,9 prósentustig á milli ára. Frá árinu 2016 hefur hlutfallið lækkað um 0,2 prósentustig á höfuðborgarsvæðinu á meðan það hefur hækkað um 3,2 prósentstig á landsbyggðinni. Munurinn skýrist þó að mörgu leyti af því að hlutfall seldra veitinga er hærra á landsbyggðinni auk þess sem betri nýting hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu gerir það að verkum að launakostnaður verður hlutfallslega lægri.

Þrátt fyrir að launahlutfall hótelkeðjanna hafi ekki hækkað ýkja mikið á síðustu árum hefur meðallaunakostnaður á starfsmann í hverjum mánuði þó hækkað að meðaltali um 13,9% frá árinu 2015. Árið 2015 nam meðallaunakostnaður á starfsmann í hverjum mánuði um 570 þúsund en var um 501 þúsund árið 2015. Hefur meðallaunakostnaður á starfsmann hækkað um 14,1% hjá Flugleiðahótelum, 24% hjá Íslandshótelum og 23,8% hjá Centerhotels á meðan hann hefur lækkað um 5,2% hjá Keahótelum. Í þessu samhengi má nefna að launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 26,7% milli áranna 2015 og 2018.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .