Fjármála- og efnahagsráðherra kynnti í dag tillögur um nýtt skattþrep fyrir lægstu tekjur: 32,94% skatthlutfall – 4% lægra en lægsta þrepið í dag – á tekjur undir 325 þúsund krónum á mánuði, en lækkunin myndi auka ráðstöfunartekjur 325 þúsund króna launa um 6.760 krónur á mánuði. Skattleysismörk að teknu tilliti til 4% iðgjalds í lífeyrissjóð yrðu 159.174 krónur eftir breytingarnar.

Einnig stendur til að hækka útgjöld til barnabóta um 1,6 milljarða króna milli ára, og hækka persónuafslátt umfram verðlag fyrir samtals 1,7 milljarða upp í 56.477 krónur á mánuði. Samanlagt nema tillögurnar um 18 milljörðum króna.

Tillögurnar voru unnar af starfshóp með það að markmiði að minnka álögur og líta til jafnaðar. Gert er ráð fyrir að tekjuskattsbreytingin komi til framkvæmda í skrefum árin 2020-2022.

Vonir stóðu til að tillögurnar gætu liðkað fyrir kjaraviðræðum sem nú standa yfir, en eins og sagt var frá fyrr í dag gekk Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélag Akraness, út af fundi í hádeginu í dag þegar honum voru kynntar tillögurnar.