Gangi veiking krónunnar frá í fyrrahaust ekki til baka má búast við að þróunin skili sér af krafti út í verðlag með vorinu þegar kaupmenn hækka verð hjá sér ofan á samningsbundnar launahækkanir, samkvæmt spá Hagfræðideildar Landsbankans.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,27% á milli mánaða og varð til þess að verðbólga stóð óbreytt í 4,2%. Niðurstaðan var ekki í takti við spár sem gerðu ráð fyrir því að vísitalan myndi breytast frá -0,1% til +0,1% á milli mánaða og var búist við að verðbólga færi niður í 4%. Bent er á það í Hagsjá Hagfræðideildarinnar að almennar verðhækkanir hafi haldið verðbólgu uppi nú.