Verðbólga í Svíþjóð, sem er stærsta hagkerfi Norðurlandanna, minnkaði í september og mælist nú 1%, segir greiningardeild Glitnis.

?Þetta er fjórði mánuðurinn í röð sem dregur úr verðbólgu. Meginástæða minni verðbólgu er lækkun olíuverðs. Kostnaður við samgöngur hefur lækkað verulega samhliða lækkun á olíuverði undanfarna mánuði.

Seðlabankinn í Svíþjóð hefur hækkað vexti fjórum sinnum á þessu ári. Stýrivextir eru nú 2,5%. Talsmenn bankans hafa gefið í skyn að vextir verði hækkaðir frekar á þessu ári. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir hagvexti í Svíþjóð 4% í ár en 2,2 árið 2007," segir greiningardeildin.

Verðbólga hjaðnar í Danmörku

Hún segir að verðbólga í Danmörku hafi einnig minnkað í september og mælist nú 1,5%.

?Þar má einnig rekja minni verðbólgu til lækkunar á olíuverði, en einnig til aukinnar framleiðni. Minni líkur eru nú taldar á ofhitnun danska hagkerfisins þrátt fyrir að atvinnuleysi hafi ekki mælst minna í um 30 ár. Ótti við að störf verði flutt úr landi heldur launaskriði í skefjum.

Einnig hefur innflutningur á ódýrum vörum frá Kína aukist og kemur í veg fyrir hækkun á neysluvörum. Seðlabankinn í Danmörku hækkaði vexti nýlega og eru stýrivextir þar nú 3,5%. Bankinn heldur vöxtum 0,25% hærri en vöxtum á Evrusvæðinu. Búist er við frekari vaxtahækkun á Evrusvæðinu og má því gera ráð fyrir hækkun í Danmörku fyrir árslok. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir hagvexti í Danmörku 2,7% í ár og 2,3% árið 2007," segir greiningardeildin.

Verðbólga eykst í Noregi

Hún segir að verðbólga í Noregi hafi aukist í september og er nú 2,6%.

?Seðlabankinn í Noregi hélt stýrivöxtum óbreyttum í síðasta mánuði eftir fimm hækkanir frá því í júní 2005 en stýrivextir bankans eru nú 3%. Svokölluð kjarnaverðbólga hefur verið undir 2,5% markmiði bankans í fjögur ár, einkum vegna verðlækkunar á fatnaði og aukinnar framleiðni," segir greiningardeildin.

?Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir hagvexti 2,4% í ár og 2,8% á næsta ári. Noregur er eina landið í vestur Evrópu sem sjóðurinn spáir meiri vexti á næsta ári en á þessu ári. Fjármálaráðuneytið í Noregi spáir hagvexti fyrir hagkerfið fyrir utan olíuiðnaðinn og skipaiðnaðinn. Ný spá frá þeim sem kom út í síðustu viku gerir ráð fyrir 3,4% hagvexti á þessu ári og 2,9% árið 2007," segir greiningardeildin.