Á sunnudaginn verður Vladimír Pútín fyrsti leiðtoginn í nútímasögu Rússlands sem lætur af embætti sjálfviljugur -- og það á hátindi ferils síns.

Það þykir nánast einsýnt að Rússar muni kjósa Dimitry Medvedev, aðstoðarforsætisráðherra og stjórnarformann Gazprom, sem næsta forseta Rússlands. Í ljósi gríðarlegra vinsælda Vladimírs Pútín -- auk máttlausrar stjórnarandstöðu og fjölmiðla sem að stærstum hluta eru í eigu bandamanna Pútíns -- er talið öruggt að Medvedev muni sigra næsta auðveldlega í kosningunum, eftir að Pútín valdi hann sem eftirmann sinn í fyrra.

Hvaða áhrif mun þessi mannabreyting í rússneskum stjórnmálum hafa -- ekki síst fyrir samskipti Rússlands og Vesturveldanna? Áhrifin verða líklega takmörkuð, að minnsta kosti til skemmri tíma, að mati flestra stjórnmálaskýrenda. En svarið við þeirri ráðgátu mun hins vegar að lokum velta á því hvort það verður Medvedev sem hefur hið raunverulega ákvörðunarvald í Kreml -- og ef svo verður, hvernig hann mun beita þessu valdi.

Sumir stjórnmálamenn og fjárfestar bera með sér þá von að samskipti Rússlands við Vesturlönd muni batna í valdatíð Medvedevs. Sú skoðun -- eða kannski óskhyggja -- byggist á því að Medvedev, sem er lögfræðimenntaður, er sagður hafa frjálslyndar skoðanir á stjórn- og efnahagsmálum, að minnsta kosti á rússneskan mælikvarða.

Nánar verður fjallað um forsetakosningarnar og utanríkisstefnu Rússlands í helgarblaði Viðskiptablaðsins á morgun.

Frá kl. 21 í kvöld geta áskrifendur lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .