Lýður Guðmundsson var dæmdur í átta mánaða fangelsi í Hæstarétti í dag fyrir ólöglega hlutafjáraukningu Exista árið 2008. Þar af eru fimm mánuðir skilorðsbundnir. Bjarnfreður Ólafsson var dæmdur í sex mánaða fangelsi, þar af þrjá skilorðsbundna, og missir lögmannsréttindi sín í eitt ár. Hann var dæmdur  fyrir að hafa sent ranga tilkynningu til fyrirtækjaskrár.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði dæmt Lýð til að greiða tveggja milljóna króna sekt. Bjarnfreður var hins vegar sýknaður af sínum þætti málsins í héraðsdómi.

Málið snýst um það að hlutafé Existu, sem átti meðal annars VÍS og stóran hlut í Kaupþingi, var aukið um fimmtíu milljarða í lok árs 2008 en aðeins greitt fyrir það einn milljarð króna.

Hér má sjá dóm Hæstaréttar.