Helstu lykilstjórnendur Íslandsbanka keyptu í dag umtalsverðan hlut í bankanum eða sem nemur tæplega 3,2 mö.kr að markaðsvirði samanlagt. Að kaupunum standa stjórnarformaður, forstjóri og 5 framkvæmdastjórar bankans ásamt framkvæmdastjóra hlutdeildarfélagsins Sjóvá Almennar. Um er að ræða framvirkan samning á samtals 240 milljónir hluta í bankanum á genginu 13,3. Samsvarar það rúmlega 1,8% af 13.135 milljóna heildarfjölda útgefinna hluta í bankanum. Uppgjörsdagur viðskiptanna er eftir rúman mánuð, þann 4. júlí næstkomandi, og mun afhending hlutanna fara fram þá gegn vaxtareiknaðri greiðslu segir í Hálffimm fréttum KB banka.

Af einstökum kaupendum má nefna að forstjóri bankans, Bjarni Ármannsson, kaupir fyrir 1.330 m.kr. og Einar Sveinsson, stjórnarformaður, fyrir 505 milljónir. "Aðrir lykilstjórnendur kaupa fyrir um 226 milljónir hver. Athygli vekur að framkvæmdastjóri Sjóvá sé í þessum hópi þrátt fyrir að Sjóvá sé nú aðeins í um þriðjungs eigu Íslandsbanka," segír í Hálffimm fréttum KB banka.

Byggt á Hálffimm fréttum KB banka.