Athafnamaðurinn Magnús Kristinsson hefur samþykkt að kaupa mótorsportfyrirtækið Gísla Jónsson ehf. en seljendur fyrirtækisins eru Karl Jónsson og fjölskylda, segir í fréttatilkynningu. Kaupverðið er trúnaðarmál milli kaupanda og seljanda.

Fyrirtækið er þriðja fyrirtækið sem Magnús kaupir á skömmum tíma, en nýlega keypti hann Bílaleigu Flugleiða og Toyotaumboðið á Íslandi. Ekki hefur komið fram hvort að Magnús muni sameina fyrirtækin þrjú.

Magnús segir hins vegar að hann meti það svo að fjölmörg tækifæri felist í kaupunum, en þau munu líta dagsins ljós á næstu misserum.

"Gísli Jónsson ehf. er mjög spennandi fyrirtæki sem selur margs konar skemmtilega hluti sem veita fólki lífsfyllingu og aukna hamingju en er jafnframt að sinna viðskiptum við fyrirtækin í landinu, smábátaeigendur, bændur og björgunarsveitir. Slík fyrirtæki er gaman að eignast og taka þátt í að efla þau til enn frekari sóknar hér á landi," segir Magnús í fréttatilkynningu..

Eins og áður segir keypti Magnús nýverið P.Samúelsson hf., en P. Samúelsson er með umboð fyrir Yamaha á Íslandi, sem Magnús telur öflugt vörumerki í jaðarsportinu bæði hér á landi og erlendis.

Einnig keypti hann nýlega Bílaleigu Flugleiða, skömmu eftir að seljandinn FL Group tilkynnti um skráningu Icelandair í Kauphöll Íslands og að Kynninsferðir og Bílaleigan væru til sölu.

Gísli Jónsson ehf. er með umboð fyrir fjöldann allan af vörumerkjum sem tengjast frítíma, afþreyingu og mótorsporti á Íslandi. Má þar helst nefna vörumerkin Ski-doo snjósleða, BRP fjórhjól og sæþotur, Johnson-Evinrute utanborðsmótora, Steady og Lomac báta, Camp-let tjaldvagna og kerrur, Starcraft fellihýsi og pallhús og Dethleffs hjólhýsi og húsbíla.