Kauphöll Íslands kannar hvort bregðast þurfi við bréfi Birkis Hólms Guðnasonar, framkvæmdastjóra Icelandair, til starfsmanna félagsins. Bréfið sendi hann starfsmönnum í gær og má lesa hér að neðan. Það er birt í heild sinni á vefsíðu DV í dag. Kristín Jóhannsdóttir, upplýsingafulltrúi Kauphallarinnar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að unnið sé eftir föstu verklagi og að málið sé í ferli hjá Kauphöllinni. Hún segir að öðru leyti geti Kauphöllin ekki tjáð sig um einstök mál.

Hlutabréfaverð í Icelandair Group hafa lækkað um 4% frá því í gær. Félagið sendi frá sér tilkynningu í morgun vegna málsins og segir að afkomuspá hafi ekki verið breytt.

Bréfið sem sent var starfsmönnum Icelandair í gær :


„Kæru samstarfsmenn,

Við erum minnt á það þessa dagana að ástand heimsmálanna getur haft mikil áhrif á dagleg störf okkar, jafnvel þó við búum og störfum hér á Íslandi. Í tengslum við uppreisnirnar í Túnis, Egyptalandi, Líbýu og víðar í Norður-Afríku og Mið-Austurlöndum hefur olíuverð hækkað mikið og þar á meðal flugeldsneyti. Síðasta sumar greiddi Icelandair um 750 dollara fyrir hvert tonn af eldsneyti. Nú í dag er verðið komið í um 1030 dollara á tonnið. Við keyptum í fyrra eldsneyti fyrir um 12,5 milljarða króna og er því auðvelt að reikna hvaða áhrif um 30% hækkun milli ára hefur á rekstur okkar.

Í stuttu máli hefur þetta mikil áhrif á rekstur Icelandair. Við stefnum að töluverðum vexti í ár eins og þið vitið og bókanir hafa farið ágætlega af stað og vaxið nokkurn veginn í takt við stækkun leiðakerfisins og áætlanir okkar. Svona mikil hækkun á eldsneytisverði breytir hins vegar öllum afkomuspám og þar dugar hækkun eldsneytisgjalds á farseðla skammt. Það er reyndar erfitt að sjá fyrir hvaða áhrif þessi órói muni hafa á efnahagslíf á vesturlöndum en við verðum að gera ráð fyrir að dregið geti úr almennri eftirspurn í samgöngum vegna kostnaðarhækkana.

Við höldum okkar striki eins og staðan er núna og stöndum við markmið okkar en verðum jafnframt að fylgjast mjög náið með þeim hræringum sem verða og vera fljót að gera breytingar ef nauðsyn krefur. Reksturinn gengur almennt ágætlega þessa dagana, stundvísin í leiðakerfinu er mikil og við fáum góðan vitnisburð úr þjónustukönnunum meðal viðskiptavina.

Við undirbúum okkur nú undir stærstu sumaráætlun í sögu Icelandair - verið er að ganga frá samningum varðandi flugvélar og auglýst hefur verið eftir sumarfólki í áhafnir. Við náðum líka góðum áfanga í þróun flugflotans á dögunum þegar fyrstu vélinni í Boeing 757 flotanum var flogið í áætlunarflugi eftir gagngera endurnýjun á stjórntækjum hennar. Allur flotinn verður nú tekinn í gegn með þessum hætti og er Icelandair fyrsta flugfélagið í Evrópu sem gerir það, en hin nýju tæki auka öryggi flugsins, minnka viðhaldskostnað og eru auk þess léttari en eldri gerðin þannig að eldsneyti sparast.

Boeing 757 flugvélarnar hafa reynst Icelandair afskaplega vel og henta leiðakerfi okkar frábærlega. Við settum vænglinga (winglets) á flotann fyrir nokkrum árum til að spara eldsneyti, við endurnýjuðum hann með nýjum sætum og skemmtikerfi fyrir alla farþega og nú er verið að endurnýja stjórnklefana og bæta vinnuaðstöðu flugmanna.

Við fengum mjög ánægjulega viðurkenningu um daginn þegar Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga valdi Icelandair fyrirtæki ársins á þekkingardegi sínum. Í umsögn dómnefndar þeirra segir: "Það er enginn vafi á því að Icelandair er nútímalegt þekkingarfyrirtæki sem starfar í síbreytilegu alþjóðlegu rekstarumhverfi þar sem miklar áskoranir eru framundan. Icelandair er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt samfélag og er vel að verðlaununum komið."

Þá var ég valinn viðskiptafræðingur ársins við sama tilefni. Báðar þessar viðurkenningar má rekja til árangurs Icelandair, og þið starfsmennirnir eigið auðvitað allan heiður af þeim árangri. Ég tileinkaði því ykkur viðurkenninguna og óska okkur öllum hér með til hamingju með hana um leið og ég þakka ykkur fyrir.

Það styttist í árshátíðina og myndböndin sem vekja mikla athygli á YouTube lofa svo sannarlega góðu fyrir skemmtunina þann 19. mars.
Bestu kveðjur,
Birkir Hólm“